Á myndinni er Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri að veita Sigurði B. Pálssyni, forstjóra BYKO og Berglindi Ósk Ólafsdóttir verkefnastjóra umhverfismála viðurkenningu Umhverfis og samgöngunefndar Kópavogs fyrir framlag BYKO til umhverfismála og vera þannig leiðarljós fyrir önnur fyrirtæki í Kópavogi.
Byko er leiðandi aðili í atvinnulífi Kópavogs. Fyrirtækið er nú í fylkingarbrjósti fyrirtækja sem undirritað hafa viljayfirlýsingu um innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun Í samstarfi við Markaðsstofu Kópavogs og Kópavogsbæ. Vistvænt BYKO er hugtak sem lýsir því hvernig fyrirtækið vinnur að umhverfismálum í eigin starfsemi og í samstarfi við birgja og viðskiptavini.
Á miðju ári 2019 hóf BYKO að skilgreina hvaða Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna væru viðeigandi fyrir starfsemi fyrirtækisins. Markmið verkefnisins var tvíþætt, annars vegar að auka skilning á Heimsmarkmiðunum og hvernig þau hafa áhrif á starfsemi BYKO og hins vegar að skilgreina þau kjarnamarkmið sem BYKO hafi að leiðarljósi í framtíðinni. Eftir að hafa mátað heimsmarkmiðin 17 við starfsemi fyrirtækisins voru eftirtalin fjögur heimsmarkmið valin sem kjarnamarkmið BYKO ásamt undimakmiðum sem horfa skal sérstaklega til við innleiðingu þeirra.
- Heimsmarkmið 5 – Jafnrétti kynjanna.
Minnka kynjaskiptingu starfa á vinnumarkaði og kynbundið námsval.
Minnka misvægi kynja í efstu lögum atvinnulífsins.
Hækka hlutfalla feðra sem taka fæðingarorlof. - Heimsmarkmið 8 – Góð atvinna og hagvöxtur.
Aukin framleiðni í sátt við umhverfi og samfélag.
Jöfn tækifæri og jöfn laun fyrir sömu vinnu. - Heimsmarkmið 9 – Nýsköpun og uppbygging
Unnið verði markvisst að því að gera starfsemina sjálfbæra, nýting auðlinda verði skilvirkari og fyrirtækið innleiði umhverfisvæna tækni og verkferla eftir bestu getu. - Ábyrg neysla og framleiðsla – markmið 12
Markmið 12 er meginmarkmiðið fyrir BYKO þar sem flestum öðrum markmiðum er hægt að ná með ábyrgri neyslu og framleiðslu. Sóun er stórt umhverfisvandamál og til að sporna við sóun verður unnið að skilvirkri og sjálfbærri nýting náttúruauðlinda m.a. með því að að tryggja að nýting auðlinda fari ekki yfir þolmörk náttúrunnar, minnkun úrgangs, aukinni endurvinnslu og endurnýtingar sem er afleiðing hringrásarhagkerfisins.
Tengt ofangreindum Heimsmarkmiðum og áskorunum á Íslandi hefur BYKO sett sér mælanleg og tímasett markmið sem unnið verður markvisst að á næstu misserum.
„Að okkar mati eru Heimsmarkmið Sameinuðuþjóðanna um sjálfbæra þróun frábært verkfæri til að fá viðskiptavini og starfsfólk til að vinna sameiginlega að betra samfélagi með minni sóunar og betri nýtingu allra aðfanga að leiðarljósi“ segir Berglind Ósk Ólafsdóttir verkefnastjóri umhverfismála hjá BYKO.
Markaðsstofan fagnar framsýni og faglegum vinnubrögðum BYKO og hvetur aðra rekstraraðila til að feta í þeirra fótspor.