Á myndinni er Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri að veita Sigurði B. Pálssyni, forstjóra BYKO og Berglindi Ósk Ólafsdóttir verkefnastjóra umhverfismála viðurkenningu Umhverfis og samgöngunefndar Kópavogs fyrir framlag BYKO til umhverfismála og vera þannig leiðarljós fyrir önnur fyrirtæki í Kópavogi.

Byko er leiðandi aðili í atvinnulífi Kópavogs. Fyrirtækið er nú í fylkingarbrjósti fyrirtækja sem undirritað hafa viljayfirlýsingu um  innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun Í samstarfi við Markaðsstofu Kópavogs og Kópavogsbæ. Vistvænt BYKO er hugtak sem lýsir því hvernig fyrirtækið vinnur að umhverfismálum í eigin starfsemi og í samstarfi við birgja og viðskiptavini.

Á miðju ári 2019 hóf BYKO að skilgreina hvaða Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna væru viðeigandi fyrir starfsemi fyrirtækisins. Markmið verkefnisins var tvíþætt, annars vegar að auka skilning á Heimsmarkmiðunum og hvernig þau hafa áhrif á starfsemi BYKO og hins vegar að skilgreina þau kjarnamarkmið sem BYKO hafi að leiðarljósi í framtíðinni. Eftir að hafa mátað heimsmarkmiðin 17 við starfsemi fyrirtækisins voru eftirtalin fjögur heimsmarkmið valin sem kjarnamarkmið BYKO ásamt undimakmiðum sem horfa skal sérstaklega til við innleiðingu þeirra.

  • Heimsmarkmið 5 – Jafnrétti kynjanna.
    Minnka kynjaskiptingu starfa á vinnumarkaði og kynbundið námsval.
    Minnka misvægi kynja í efstu lögum atvinnulífsins.
    Hækka hlutfalla feðra sem taka fæðingarorlof.
  • Heimsmarkmið 8 – Góð atvinna og hagvöxtur.
    Aukin framleiðni í sátt við umhverfi og samfélag.
    Jöfn tækifæri og jöfn laun fyrir sömu vinnu.
  • Heimsmarkmið 9 – Nýsköpun og uppbygging
    Unnið verði markvisst að því að gera starfsemina sjálfbæra, nýting auðlinda verði skilvirkari og fyrirtækið innleiði umhverfisvæna tækni og verkferla eftir bestu getu.
  • Ábyrg neysla og framleiðsla – markmið 12
    Markmið 12 er meginmarkmiðið fyrir BYKO þar sem flestum öðrum markmiðum er hægt að ná með ábyrgri neyslu og framleiðslu. Sóun er stórt umhverfisvandamál og til að sporna við sóun verður unnið að skilvirkri og sjálfbærri nýting náttúruauðlinda m.a. með því að að tryggja að nýting auðlinda fari ekki yfir þolmörk náttúrunnar, minnkun úrgangs, aukinni endurvinnslu og endurnýtingar sem er afleiðing hringrásarhagkerfisins.

Tengt ofangreindum Heimsmarkmiðum og áskorunum á Íslandi hefur BYKO sett sér mælanleg og tímasett markmið sem unnið verður markvisst að á næstu misserum.

„Að okkar mati eru Heimsmarkmið Sameinuðuþjóðanna um sjálfbæra þróun frábært verkfæri til að fá viðskiptavini og starfsfólk til að vinna sameiginlega að betra samfélagi með minni sóunar og betri nýtingu allra aðfanga að leiðarljósi“ segir Berglind Ósk Ólafsdóttir verkefnastjóri umhverfismála hjá BYKO.

Markaðsstofan fagnar framsýni og faglegum vinnubrögðum BYKO og hvetur aðra rekstraraðila til að feta í þeirra fótspor.

Ellefu fyrirtæki í Kópavogi hafa skrifað undir viljayfirlýsingu um innleiðingu  Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun inn í sína starfsemi. Markaðsstofa Kópavogs heldur utan um verkefnið í samvinnu við Kópavogsbæ, sem hefur unnið að innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2018.

Fyrirtækin sem hafa skrifað undir eru Íslandsbanki, Reginn, Sky Lagoon,Prófító bókhaldshús, BYKO, Festi, Valka, Mannvit, Tryggingastofnun, Hótel Kríunes og Brunabótafélag Íslands, eignarhaldsfélag.

„Það er ánægjulegt að finna þennan mikla áhuga hjá fyrirtækjum í Kópavogi á svona mikilvægu samfélagsmáli sem innleiðing Heimsmarkmiðanna er,“ segir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri í Kópavogi.

Verkefninu var formlega hleypt af stokkunum á fundi Kópavogsbæjar í dag sem haldinn var í tilefni útgáfu skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, um þátttöku Kópavogsbæjar í alþjóðlegu verkefni OECD um innleiðingu Heimsmarkmiðanna hjá sveitarfélögum og þróun mælikvarða því tengdu.

Samstarf um innleiðingu Heimsmarkmiðanna hjá fyrirtækjum er einn afrakstur þátttöku bæjarins í verkefninu. Rýnihópur fyrirtækja undir handleiðslu Markaðsstofunnar forgangsraðaði þeim átta heimsmarkmiðum sem valin voru í verkefnið.

„Markaðsstofa Kópavogs hvetur fyrirtæki og stofnanir í bænum til að innleiða heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna í stefnu sína og daglegan rekstur og sýna þannig samfélagslega ábyrgð í verki. Allir vinni saman að því að bæta umhverfið og samfélagið og gera Kópavog, Ísland og heiminn allan að betri stað til að búa og starfa í,“ segir Björn framkvæmdastjóri Markaðsstofu Kópavogs.

Nánar má lesa um verkefnið hér.

Fjölskylduveitingastaðurinn 20&SJÖ mathús & bar við Víkurhvarf 1 í Kópavogi var opnaður í mars síðastliðnum af hjónunum Helga Sverrissyni og Arndísi Þorgeirsdóttur og syni þeirra Hring. Staðurinn, sem er rúmgóður og fallega innréttaður með gott útsýni yfir Elliðavatn, hefur fengið góðar viðtökur hjá íbúum hverfisins og annarra sælkera sem margir koma langt að til að njóta góðra veitinga.

Helgi er yfirmatreiðslumaður 20&SJÖ. „Við bjóðum upp á fjölbreyttan mat og áhrifin eru alls konar, svo sem frá Suðurríkjum Bandaríkjanna og frá löndunum við Miðjarðarhaf. Við eldum svínarif og pastrami í Tennessee-reykofninum okkar. Við reykjum líka lambakjöt og veganrétti í ofninum. Við notum íslenskt birki til að ná fram góðu reykbragði, og síðan er kjötið eldað við lágan hita í langan tíma, eða „low & slow“ eins og sagt er í Ameríku,“ segir Helgi og bætir við að kryddblöndur og sósur séu lagaðar frá grunni í eldhúsinu. „Við erum auk þess með vandað og gott úrval léttvína.“

Helgi segir fjölbreytta veganrétti að finna á matseðlinum og njóti þeir vinsælda. Þá er að sjálfsögðu barnamatseðill og barnahorn enda fjölskyldur velkomnar á staðinn.

20&SJÖ er opinn fram á kvöld miðvikudaga til sunnudaga, lokað er á mánudögum og þriðjudögum. Hamingjustund, þar sem tapas fylgir drykk, er alla daga og bröns á laugardögum.

„Við erum þakklát fyrir frábærar móttökur gesta, ekki síst héðan úr næsta nágrenni. Þetta hefur verið ánægjulegur tími þótt samkomubönn og slíkt hafi spilað rullu í starfseminni. Við lítum björtum augum til framtíðar og hlökkum til að þjóna gestum um ókomna tíð,“ segir Helgi Sverrisson.

Heim­ir Jónas­son fyrrverandi framkvæmdastjóri Markaðsstofu Kópavogs lést á líkn­ar­deild Land­spít­al­ans laug­ar­dag­inn 28. mars sl. eftir erfið veikindi.

Heim­ir var fram­kvæmda­stjóri Markaðsstofu Kópa­vogs frá miðju ári 2016 fram á mitt ár 2018. Heim­ir starfaði áður m.a. sem dag­skrár­stjóri Stöðvar 2, sem fram­leiðslu­stjóri hjá Lata­bæ, þjálf­ari hjá Dale Car­negie og um ára­bil rak hann eigið markaðsfyr­ir­tæki; Icelandic Cow­boys. Hann út­skrifaðist úr Uni­versity of Televisi­on and Film í München í Þýskalandi árið 1995 og lauk MBA-námi frá Há­skóla Íslands árið 2017.

Stjórn Markaðsstofu Kópavogs sendir fjölskyldu Heimis innilegar samúðarkveðjur.

Forsvarsmönnum fyrirtækja í Kópavogi er boðið til morgunfundar um efnahagshorfur fyrir 2020 og 2022 sem haldinn verður föstudaginn 21 febrúar nk. kl. 8:00 til 9:00 í útibúi bankans á 1. hæð í Norðurturni að Hagasmára 3, 201 Kópavogi,

Á fundinum mun Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka og Bergþóra Baldursdóttir, hagfræðingur í Greiningu Íslandsbanka fara yfir nýja þjóðhagsspá fyrir árin 2020-2022, svara fyrirspurnum og ræða við gesti.

Boðið verður uppá léttan morgunverð.

Fundurinn er opinn öllum forsvarsmönnum fyrirtækja í Kópavogi.

Þátttakendur eru vinsamlegast beðnir að tilkynna þátttöku með tölvupósti til markadsstofa@kopavogur.is eða í síma 864 8830.

Á síðustu árum hefur umferð á höfuðborgarsvæðinu aukist verulega og nú er svo komið að á álgstímum færist umferðin áfram á gönguhraða.  Skipulagsyfirvöld eru ekki að ná tökum á viðfangsefninu, bættar samgöngur virðast kalla á fleiri bíla og illa gengur að auka notkun almannasamgangna. Lausnir miða allar að því að stækka og auka flutningsgetu kerfisins.

Hvers vegna eru umferðahnútar á morgnana og síðdegis? Hver er rót vandans?

Rót vandans liggur í því að starfsfólk býr í úthverfum en sækir vinnu miðsvæðis í Reykjavík.

Er ekki meiri skynsemi í að greina rót vandans og leysa hið raunverulega  viðfangsefni frekar en að vera stöðug að glíma við afleiðingarnar með plástrum og verkjalyfjum. Rót vandans liggur í því að of stór hluti atvinnlífsins er miðsvæðis í Reykjavík og því liggur umferðaþunginn niður í bæ á morgnanna og til baka í úthverfin í lok dags, þegar starfsfólk heldur til og frá vinnu. Hin raunhæfa lausn liggur í því að byggja upp og styrkja atvinnulíf í úthverfum höfuðborgarinnar, á svæðum sem staðsett eru í námunda við stofnbrautir. Þegar straumar liggja jafnt í allar áttir verður nýting umferðarmannvirkja betri, flöskuhálsar leysast og flæði í umfeðinni verður þannig að umferðartími til og frá vinnu styttist. Leiða má sterk rök að því að áhersla á uppbyggingu atvinnusvæða í Kópavogi og öðrum svæðum utan miðbæjarkjarnanns sé mikilvægt innlegg til að nýta umferðarmannvirki betur, jafna umferðarálag og spara vegfarendum dýrmætan tíma.

Við Kópavogsbúar njótum góðs af því að síðustu ár hefur uppbygging atvinnulífs verið mikil í bæjarfélaginu og nú er svo komið að framboðin störf í bænum eru nægjanleg til að uppfylla eftirspurn bæjarbúa á vinnumarkaði. En auðvitað er það ekki svo að Kópavogsbúar sæki vinnu í Kópavogi og íbúar annarra bæjarfélaga í sínum heimabæ. Höfuðborgarsvæðið er eitt atvinnusvæði og fólk sækir sína atvinnu þangað sem tækifærin gefast og hverjum best passar.

Kópavogsbær er að vinna gott og markvisst starf við innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og er leiðandi aðili í þeirri vegferð á Íslandi. Uppbygging öflugs atvinnulífs í Kópavogi styður innleiðingu heimsmarkmiðanna og er mikilvægur þáttur í því að gera bæjarfélagið sterkara og Kópavog að betri stað til að búa í. Störf í heimabyggð leiða til minni aksturs á álagstímum og létta þannig á umferðarþunga með jákvæðum umhverfisáhrifum. Tímann sem sparast má nýta til samveru með fjölskyldu eða til heilsueflingar og morgunstressinu breya í gæðastundir. Störf í nærumhvefi einfalda lífið og leiða til aukinnar atvinnuþátttöku vegna nálægðar heimilis, skóla/leikskóla og vinnustaðar og stuðla þannig að auknu jafnrétti, þar sem fjölskyldur með ung börn og jaðarhópar fá betri aðgang og fleiri atvinnutækifæri.

Hugsum í lausnum og hættum að hnýta umferðarhnúta.