Hátæknifyrirtækið Teledyne Gavia ehf., sem framleiðir ómannaða kafbáta, er staðsett á Kársnesinu í Kópavogi. Fyrirtækið er í eigu bandaríska fyrirtækisins Teledyne Technologies Incorporated.

Fyrirtækið framleiðir kafbáta sem sigla ómannaðir og er þeim ætlað að leysa verkefni neðansjávar, verkefni sem ekki er hagkvæmt að framkvæma með stærri og dýrari lausnum. Viðfangsefnin geta verið hernaðarleg, viðskiptaleg eða tengd björgunarstörfum. Kafbátarnir eru búnir skynjurum og öðrum hátæknibúnaði til að skoða, mynda og  rannsaka svæði neðansjávar. Bátarnir eru samsettir úr nokkrum sérhæfðum einingum, sem hægt er að skipta út og setja inn nýja sérhannaða huta í staðinn en þessi eiginleiki eykur sveigjanleika og notagildi bátanna mikið. Í framleiðslu eru tvær tegundi báta, minni báturinn, Gavia AUV, vegur um 70 til 120 kg. en hinn, SeaRaptor AUV, er mun stærri og vegur tæplega 1,1 tonn. Bátar frá fyrirtækinu hafa m.a. verið notaðir til að leita að sprengjum neðansjávar, til að leysa ýmis verkefni við olíuleit og vinnslu auk þess að hafa nýst við leit að flökum eftir flug- og sjóslys. Markaðssvæði fyrirtækisins er heimurinn allur og núverandi viðskiptavinir eru ríkisstjórnir og stórfyrirtæki í Evrópu, Ameríku og Asíu.

Hjá fyrirtækinu starfa 20 manns og sinnir um helmingur þeirra eingöngu vöruþróun og prófunum. Margir starfsmenn eru með mikla og sérhæfða menntun og ljóst að ekki er mikið framboð af störfum sem krefjast þeirrar þekkingar á Íslandi. Störf sem Teledyne Gavia og önnur fyrirtæki í hátæknigeiranum skapa eru því mjög mikilvæg fyrir atvinnulífið í Kópavogi og á Íslandi.

Fyrirtækið bauð utanríkisráðherra Guðlaugi Þór Þórðarsyni og Ármanni Kr. Ólafssyni bæjarstjóra Kópavogs í heimsókn þar sem starfsemin var kynnt og framleiðsluvörur þess sýndar.

Á myndinni eru Stefán Reynisson framkvæmdastjóri ásamt Ármanni Kr. Ólafssyni bæjarstjóra og Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra.

Á horninu á Auðbrekku og Dalbrekku er lítill og fallegur vegan/grænmetis staður sem ber nafnið MR.JOY. Staðurinn er í sama húsnæði og Mamma Veit Best. MR.JOY er lítið fjölskyldufyrirtæki með risastórt hjarta og mikinn metnað. „Við viljum vera lítið umhverfisvænt fjölskyldufyrirtæki, sem býður upp á ferska góða og holla framleiðslu, unna úr ferskasta og besta lífræna hráefni sem völ er á segir Reynir Hafþór Reynisson sem rekur staðinn ásamt eiginkonu sinni Írisi Mjöll Eiríksdóttur.

Frá því að MR.JOY opnaði sl. vor hefur verið boðið upp á heita súpu, sem kynnt er sem „Töfrandi heita súpa dagsins, sem vermir, léttir lund og gerir kraftaverk fyrir heilsuna“. Súpan er vegan og glútenlaus, súrdeigsbrauð fylgir með og hægt er að bæta við hummus. Nýlega hafa þau bætt við “Rétt dagsins” sem er heitur og hollur vegan réttur, sem hægt er að fá í heilum og hálfum skömmtum. Þá framleiða þau einnig syndsamlega góðar súkkulaðihrákökur og hummus og einnig grænt og rautt pesto. Þá hafa vegan /grænmetis mr.joy-minilokurnar, fersku djúsarnir og hinir næringarríku smoothies notið gríðarlegra vinsælda alveg frá upphafi. Sama má segja um skafísinn sem framleiddur er af Joylato. „Við leggjum metnað okkar í að bjóða gott lífrænt ræktað hráefni og allar okkar umbúðir eru lífrænar því þær eru búnar til úr plöntum. Við hvetjum líka fólk að koma með sín eigin ílát og fá afslátt í staðinn“ segir Reynir

Það er notalegt að stoppa við hjá MR.JOY í nokkrar mínútur og taka með sér hollan og góðan mat eða njóta hans á staðnum. Það má með sanni segja að MR.JOY sé eitt best geymda leyndarmálið í Kópavogi.

Þvegillinn er fjölskyldufyriræki sem var stofnað af Gunnlaugi Einassyni og fjölskyldu árið 1969 og er fyrirtækið því 50 ára nú í ár. Fyrirtækið var stofnað á heimili Gunnlaugs við Álfhólsveg og hefur alltaf verið með heimilisfesti í Kópavogi. Helstu verkefnin Í upphafi voru að hreingera og bóna sjúkra- og skurðstofur á Borgarspítalanum í Fossvogi en fljótlega bættust við verkefni í öðrum stofnunum, fyrirtækjum og heimahúsum. Árið 2000 tóku Einar Gunnlaugsson húsasmíðameistari og Magnea Geirsdóttir við rekstri fyrirtækins og 2003 hóf Gunnlaugur Einarssonar sonur þeirra einnig störf hjá fyrirtækinu og má því segja að þrjár kynslóðir hafi starfað við reksturinn. Verkefnum hefur fjölgað jafnt og þétt og þau eru orðin fjölbreyttari og flóknari með tilheyrandi tækjabúnaði. Þvegillinn er kominn í húsnæði við Nýbýlaveg 14 í Kópavogi þar sem m.a. er góð þvottaaðstaða og aðstaða til að hreinsa húsgögn auk þess sem þar fer vel um starfsfólkið.

„Við höfum mikla reynslu í að hreingera heimili, sameignir, fyrirtæki og sumarhús auk sérhæfðari verkefna á sjúkrahúsum, álverum og hreingerningum um borð í skipum og flugvélum. Starfsfólkið okkar er að sjálfsögðu ómissandi, það  er vel þjálfað, með hreina sakaskrá og gerir alltaf sitt besta. Við leggjum okkur fram um að skapa gott starfsumhverfi með góðum aðbúnaði og jákvæðum samskiptum og hefur sama fólkið starfað hjá fyrirtækinu árum saman“ segir Einar Gunnlaugsson stoltur af fyrirtækinu og sínu fólki.

Markaðsstofa Kópavogs óskar fjölskyldunni til hamingu með 50 árin sem setur fyrirtækið í hóp elstu starfandi fyrirtækja í bænum.

Markaðsstofa Kópavogs bauð fulltrúum fyrirtækja í Kópavogi á opinn fund um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja. Á fundinum flutti Hrund Gunnsteinsdóttir framkvæmdastjóri Festu, miðstöðvar um samfélagslega ábyrgð erindi um mikilvægi þess að rekstraraðilar tileinki sér samfé­lags­lega ábyrga starfs­hætti og tækifæri þeim tengdum. Auður Finnbogadóttir verkefnastjóri stefnumótunar hjá Kópavogsbæ fór einnig yfir innleiðingu Kópavogsbæjar á Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Framsögumenn fengu margar góðar spurningar og fjörurgar umræður urðu um málaflokkinn.

Markaðsstofan þakkar Hrund og Auði fyrir þeirra góðu framsögu og þátttakendum fyrir mætingu og jákvæða þátttöku.

Á myndinni er Hrund Gunnsteinsdóttir framkvæmdastjóri Festu, miðstöðvar um samfélagslega ábyrgð.

Á ársfundi Markaðsstofu Kópavogs þann 10. september 2018 voru fjórir nýir stjórnarmenn tilnefndir af bæjarstjórn Kópavogsbæjar, þau Helga Hauksdóttir, Sigurður Sigurbjörnsson, Tómas Þór Tómasson og Elvar Bjarki Helgason. Fyrir í stjórn voru Svava Grímsdóttir, Eygló Karólína Benediktsdóttir og Tómas Hafliðason, kjörin á ársfundi 2017. Stjórn skipti með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund, þann 12. september sl. Helga Hauksdóttir var kosin formaður, Sigurður Sigurbjörnsson var kosinn varaformaður og Tómas Hafliðason var kosinn ritari. Eftir stjórnarfund dró Tómas Hafliðason stjórnarsetu sína til baka og sæti hans tók varamaður, Haraldur Teitsson. Á starfsári stjórnar voru haldnir fimm stjórnarfundir auk samskipta í gegnum tölvupóst og síma.

Einn starfsmaður er á launaskrá Markaðsstofunnar, Björn Jónsson, verkefnastjóri. Hann er í 75% starfshlutfalli. Starfsstöð Markaðsstofunnar er í Engihjalla 8, þar sem aðstaða er til móttöku gesta og minni funda. Bókhald er unnið af starfsmanni Markaðsstofunnar í kerfi Reglu ehf. og skoðunarmenn reikninga voru Ingólfur Arnarson og Páll Ólafsson, en Valborg Inga Guðsteinsdóttir mun taka við af Páli Ólafssyni, sem við þökkum góð störf.

Fjöldi aðildarfyrirtækja Markaðsstofunnar hefur staðið í stað síðastliðin ár og eru þau að jafnaði í kringum 80. Á síðasta ársfundi var ákveðið að hækka ársgjaldið úr 12.000 kr. í 15.000 kr. og virðist sú ákvörðun ekki hafa haft áhrif á fjölda aðildarfyrirtækja.

Verkefni Markaðsstofunnar eru af margvíslegum toga, bæði stór og smá. Rauði þráðurinn er hlutverk Markaðsstofunnar sem tengiliður á milli fyrirtæka í Kópavogi og Kópavogsbæjar til að vinna að sameiginlegum verkefnum sem báðir hafa hag af.

Á fyrsta stjórnarfundi kom fram vilji nýrrar stjórnar til þess að Markaðsstofan beitti sér í málefnum ferðaþjónustunnar. Í kjölfarið var rætt við helstu hagsmunaaðila og komið á samtali á milli þeirra og Kópavogsbæjar ásamt því að standa fyrir kynningu frá Höfuðborgarstofu, sem Kópavogsbær er aðili að, og Samtökum ferðaþjónustunnar. Það er ljóst að það er mikill vilji hjá ferðaþjónustaðilum í Kópavogi til þess að halda áfram með þetta verkefni. Markaðsstofan hefur komið að vinnu við innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna þar sem Kópavogsbær er leiðandi aðili á Íslandi. Gott samstarf hefur verið við forsvarsfólk þess verkefnis og framundan spennandi viðfangsefni. Í þessu samhengi má nefna að þann 11. september nk. mun Markaðsstofan standa fyrir fundi um samfélagslega ábyrgð í samvinnu við Kópavogsbæ og Festu. Þá hefur Markaðsstofan verið tengiliður á milli Kópavogsbæjar og fyrirtækja í ýmsum verkefnum sem snúa að ásýnd Kópavogs og má þar sérstaklega nefna hreinsunarátak á Kársnesi sem tókst sérlega vel. Auk þess sem nefnt hefur verið hafa verið haldnir fyrirtækjafundir og ýmsar kynningar á aðildarfyrirtækjum, m.a. í bæjarblöðunum í Kópavogi og á samfélagsmiðlum, auk ýmissar annarrar þjónustu og aðstoðar sem Markaðstofan hefur veitt aðildarfyrirtækjum og Kópavogsbæ.

Markaðsstofa Kópavogs er að langmestu leyti fjármögnuð af Kópavogsbæ. Ljóst er að ganga þarf til samninga við Kópavogsbæ til að tryggja langtímafjármögnun Markaðsstofunnar auk þess að vinna í að auka sjálfbærni hennar og auka fjölda aðildarfyrirtækja. Við hlökkum til að fá öfluga fulltrúa frá atvinnulífinu inn í stjórn og ég vil nota tækifærið að þakka þeim stjórnarmönnum sem nú hverfa úr stjórn fyrir sína vinnu.

Helga Hauksdóttir, stjórnarformaður

Aðalfundur Markaðsstofu Kópavogs 2019 verður haldinn miðvikudaginn 28. ágúst nk. kl. 12:00  í Molanum, Hábraut 2, 200 Kópavogi.

Á fundinum verða þrír fulltrúar fyrirtækja og einn til vara kjörnir í stjórn félagsins. Forsvarsmenn aðildarfélaga eru hvattir til að gefa kost á sér til stjórnarsetu næstu tvö árin.

Dagskrá aðalfundar:
1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
2. Skýrsla stjórnar
3. Reikningar félagsins 2018
4. Ákvörðun árgjalds
5. Kosning fulltrúa fyrirtækja í stjórn
6. Kosning skoðunarmanns reikninga og eins til vara
7. Önnur mál

Samkvæmt 7. gr. samþykktar Markaðsstofu Kópavogs eiga þeir sem greitt hafa árgjald félagsins kjörgengi og kosningarétt á aðalfundinum.  Þeir sem vilja gerast aðilar fyrir aðalfund félagsins geta haft samband með tölvupósti á markadsstofa@kopavogur.is eða í síma 864 8830.

Allir aðildarfélagar að Markaðsstofu Kópavogs eru boðnir hjartanlega velkomnir á fundinn.

Kópavogur er þátttakandi í markaðsverkefninu „Reykjavik Loves“ þar sem höfuðborgarsvæðið er kynnt sem ein heild gangvart erlendum ferðamönnum. Höfuðborgarstofa stýrir verkefninu í samvinnu við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og er markmið þess er að dreifa ferðamönnum betur um höfuðborgarsvæðið og stuðla þannig að betri nýtingu þjónustu og afþreyingar.

Hin ýmsu svæði höfuðborgarinnar eru kynnt undir nafni Reykjavíkur með skírskotun til sérstöðu hvers svæðis. Kópavogsháls er kynntur sem „Culture Hill“, sem útleggja má sem menningarhæð, en þar er lögð áhersla á að kynna menningarhús Kópavogs ásamt Kópavogskirkju og Sundlaug Kópavogs. Menningarhúsin eru Gerðarsafn, Náttúrufræðistofa Kópavogs, Bókasafn Kópavogs og Salurinn.

Ferðamenn gera notið góðra veitinga hjá Pure Deli í Gerðarsafni en þar er m.a. mjög skemmtilegt útisvæði á túninu að vestanverðu við menningarhúsin og einnig er stutt í önnur veitingahús og verslanir í Hamraborg.

Töluvert margir ferðamenn heimsækja svæðið, sem er vel tengt við almenningssamgöngur. Þótt að svæðið sé sérstaklega markaðssett til erlendra ferðamanna er það einnig spennandi fyrir innlenda ferðamenn og tilvalið er fyrir heimafólk að gerast ferðamenn einn eftirmiðdag á menningahæðinni á Kópavogshálsi.

Sjá nánar um „Culture Hill“ á vefsvæðinu www.visitreykjavik.is/culture-hill.

Veitingastaðurinn Pure Deli opnaði sumarið 2017 í Urðarhvarfi 4, efst í Kópavogi. Að stofnun hans stóðu nokkrir matgæðingar með ástríðu fyrir góðum lífsstíl og heiðarlegum, bragðgóðum, hollum mat. Pure Deli leggur áherslu á ferskan og góðan mat, góða þjónustu og gott andrúmsloft. Á matseðlinum eru m.a. súrdeigspizzur, vefjur, salöt, súpur og djúsar ásamt kaffi og bakkelsi. Einnig er boðið upp á vegan og glúteinlausa rétti auk þess sem hægt er að panta veitingar í veislur og á fundi. Um helgar er vinsælt að mæta í „bröns“ en Brunchplattinn á Pure Deli er sannkallaður sælkera platti. Á honum er nýbakað súrdeigsbrauð með pesto,indianchicken salati,klettasalati,avocado & serrano hráskinku, belgísk vaffla m/þeyttum rjóma, berjum & súkkulaði sósu, grísk jógúrt m/berjum & hunangi, ávextir,kaffi og djús.

Að sögn Jóns Arnars Guðbrandssonar rekstraraðila staðarins hefur góður stígandi verið í rekstrinum. Við erum hverfisstaður sem er hugsaður fyrir nágranna okkar sem vilja góðan og notalegan veitingastað og kaffihús í sínu hverfi. Í Urðarhvarfi erum við staðsett stutt frá góðum gönguleiðum og fallegum náttúruperlum, eins og Rauðvatni, Elliðavatni og Heiðmörk og í Gerðarsafni í Hamraborg geta gestir og gangandi notði listagóðs matar í fallegu og menningarlegu umhverfi. Einkunnarorð okkar eru „Við trúum á að njóta augnabliksins með góðum og heilsusamlegum mat í fallegu umhverfi“ segir Jón Arnar að lokum.

Markaðsstofa Kópavogs fagnar þessari góðu viðbót við veitingaflóru Hamraborgarinnar og hvetur Kópavogsbúa til að koma og kynna sér hvað staðurinn hefur uppá að bjóða.

Bæjarstjórn Kópavogs hefur samþykkt að innleiða Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun í stefnu Kópavogsbæjar og verður Kópavogur þar með fyrsta sveitarfélag á Íslandi til þess að innleiða Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna með formlegum hætti. Kóapvogur, í samstarfi við OECD, er þátttakandi í brautryðjendaverkefni ásamt átta öðrum bæjarfélögum/borgum víða úr heiminum um innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðuþjóðanna. Aðrir þátttakendur í verkefninu er m.a. New York borg og Osaka í Japan.

Síðustu misseri hefur verið unnið markvisst að því að móta framtíðar stefnu fyrir bæjarfélagið. Á vefslóðinni https://www.kopavogur.is/heimsmarkmidin má finna samantekt þessarar vinnu sem samanstendur af hlutverki, framtíðarsýn, gildum og yfirmarkmiðum sem eru fengin úr Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Með þessari markvissu vinnu hefur yfirstjórn bæjarins sýnt frumkvæði og stefnufestu þar sem sammtíma verkefni munu taka mið af langtíma sýn fyrir bæjarfélagið í heild.

Markaðsstofan fagnar metnaði og faglegum vinnubrögðum.