Veitingastaðurinn Pure Deli opnaði sumarið 2017 í Urðarhvarfi 4, efst í Kópavogi. Að stofnun hans stóðu nokkrir matgæðingar með ástríðu fyrir góðum lífsstíl og heiðarlegum, bragðgóðum, hollum mat. Pure Deli leggur áherslu á ferskan og góðan mat, góða þjónustu og gott andrúmsloft. Á matseðlinum eru m.a. súrdeigspizzur, vefjur, salöt, súpur og djúsar ásamt kaffi og bakkelsi. Einnig er boðið upp á vegan og glúteinlausa rétti auk þess sem hægt er að panta veitingar í veislur og á fundi. Um helgar er vinsælt að mæta í „bröns“ en Brunchplattinn á Pure Deli er sannkallaður sælkera platti. Á honum er nýbakað súrdeigsbrauð með pesto,indianchicken salati,klettasalati,avocado & serrano hráskinku, belgísk vaffla m/þeyttum rjóma, berjum & súkkulaði sósu, grísk jógúrt m/berjum & hunangi, ávextir,kaffi og djús.

Að sögn Jóns Arnars Guðbrandssonar rekstraraðila staðarins hefur góður stígandi verið í rekstrinum. Við erum hverfisstaður sem er hugsaður fyrir nágranna okkar sem vilja góðan og notalegan veitingastað og kaffihús í sínu hverfi. Í Urðarhvarfi erum við staðsett stutt frá góðum gönguleiðum og fallegum náttúruperlum, eins og Rauðvatni, Elliðavatni og Heiðmörk og í Gerðarsafni í Hamraborg geta gestir og gangandi notði listagóðs matar í fallegu og menningarlegu umhverfi. Einkunnarorð okkar eru „Við trúum á að njóta augnabliksins með góðum og heilsusamlegum mat í fallegu umhverfi“ segir Jón Arnar að lokum.

Markaðsstofa Kópavogs fagnar þessari góðu viðbót við veitingaflóru Hamraborgarinnar og hvetur Kópavogsbúa til að koma og kynna sér hvað staðurinn hefur uppá að bjóða.

Bæjarstjórn Kópavogs hefur samþykkt að innleiða Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun í stefnu Kópavogsbæjar og verður Kópavogur þar með fyrsta sveitarfélag á Íslandi til þess að innleiða Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna með formlegum hætti. Kóapvogur, í samstarfi við OECD, er þátttakandi í brautryðjendaverkefni ásamt átta öðrum bæjarfélögum/borgum víða úr heiminum um innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðuþjóðanna. Aðrir þátttakendur í verkefninu er m.a. New York borg og Osaka í Japan.

Síðustu misseri hefur verið unnið markvisst að því að móta framtíðar stefnu fyrir bæjarfélagið. Á vefslóðinni https://www.kopavogur.is/heimsmarkmidin má finna samantekt þessarar vinnu sem samanstendur af hlutverki, framtíðarsýn, gildum og yfirmarkmiðum sem eru fengin úr Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Með þessari markvissu vinnu hefur yfirstjórn bæjarins sýnt frumkvæði og stefnufestu þar sem sammtíma verkefni munu taka mið af langtíma sýn fyrir bæjarfélagið í heild.

Markaðsstofan fagnar metnaði og faglegum vinnubrögðum.

Markaðsstofa Kópavogs og  Kópavogsbær boðuðu rekstraraðila í ferðaþjónustu í Kópavogi til fundar til að ræða stöðu ferðaþjónustu í bænum. Á fundinn mættu fulltrúar ferðaþjónustu í Kópavogi, forsvarsmenn ferðamála hjá Kópavogsbæ ásamt fulltrúum frá Marakðsstofu Kópavogs.

Fundarstjóri var Björn Jónsson frá Markaðsstofu Kópavogs og fór hann í upphafi fundarins yfir tölulegar staðreyndi um umfang ferðaþjónustu í Kópavogi. Fram kom m.a. að í Kópavogi séu yfir 50 fyrirtæki starfandi í ferðaþjónustu og þar af séu a.m.k. 10 aðilar að bjóða gistiþjónustu. Áætlað umfang ferðaþjónustu í Kópavogi hleypur á milljörðum króna.

Sigríður Björg Tómasdóttir almannatengill Kópavogsbæjar og Soffía Karlsdóttir forstöðumaður menningarmála fóru yfir þær markaðsaðgerðir sem Kópavogur hefur staðið fyrir sl. ár í markaðssteningu á Kópavogi til erlendra ferðamanna og upplýstu fundinn um þær aðgerðir sem framundan eru.

Karen María Jónsdóttir forstöðumaður Höfuðborgarstofu kynnti verkefnið Reykjavik Loves, sem er samstarfsverkefni sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um markaðssetningu til erlendra ferðamanna. Hún kynnti vefsvæðið www.visitreykjavik.is og hvatti ferðaþjónustuaðila til að nýta sér þá möguleika sem vefurinn býður uppá. Hún upplýsti m.a. að rúmlega 1 milljón einstakir gestir hafi heimsótt vefinn á síðasta ári.

Jóhannes Þór Skúlason framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar upplýsti fundarmenn um framtíðarsýn SAF og áréttaði mikilvægi þess að skýr stefna sé mörkuð af stjórnvöldum og framtíðarsýn teiknuð upp. Hann lagði áherslu á að sveitarfélög móti sína eigin ferðamálastefnu sem þurfi þó að taka miða af sameiginlegri heildarstefnu fyrir greinina.

Í lok fundarins urðu góðar umræður um stöðu ferðaþjónustu í Kópavogi og ýmsar góðar tillögur komu fram um það sem betur megi gera í þessum málaflokki til að bæta hag heildarinnar. Fram kom skýr vilji aðila til að vinna sameiginlega að framgangi ferðaþjónustu í Kópavogi þar sem miklir hagsmunir séu undir og tækifæri til að gera betur séu til staðar.

Markaðsstofa Kópavogs þakkar þeim sem mættu á fundinn fyrir þátttökuna og frummælendum fyrir fróðleg og skemmtileg erindi.

Markaðsstofa Kópavogs og Íslandsbanki buðu forsvarsmönnum fyrirtækja í Kópavogi til morgunfundar þriðjudaginn 12 febrúar sl. kl. 8:00 til 9:00 í útibúi bankans að Hagasmára 3. Vel var mætt og fundarmenn áhugasamir um erindi Jóns Bjarka Bentssonar, aðalhagfræðings Íslandsbanka sem fór yfir efnahagshorfur fyrir þetta ár og hið næsta samkvæmt nýuppfærðri þjóðhagsspá Greiningar Íslandsbanka.

Eftir að Bjarki hafði lokið sínu erindi kynntu Eyrún Huld Harðardóttir og Ragnar Trausti Ragnarsson Meistaramánuð Íslandsbanka.

Boðið var uppá léttan morgunverð og fóru gestir vel upplýstir og mettir af fundinum.

Markaðsstofan þakkar Íslandsbanka fyrir góðar móttökur og þáttakendum fyrir mætinguna.

Tannlæknastofa Kópavogs hóf starfemi í Kórahverfinu nýlega. Stofan er staðsett á þriðju hæð í nýju og glæsilegu húsnæði við Vallarkór 4 (sama hús og Krónan) og er eina tannlæknastofan í póstnúmeri 203. Þess má geta að aðgengi fyrir fatlaða er mjög gott og næg bílastæði eru á staðnum. Nýja stofan er búin nýjustu tækjum og tækni og má m.a. nefna að í tannlæknastólnum er hægt að horfa á spjaldtölvu með hljóðdeyfandi heyrnatólum.

Tannlæknar stofunnar eru þau Birgir Pétursson og Kolbrún Edda Haraldsdóttir og munu þau bjóða uppá alla almenna tannlæknaþjónustu. Að sögn Birgis og Kolbrúnar verður lögð áhersla á góða persónulega þjónustu og verður m.a. opið fram á kvöld á fimmtudögum.

Markaðsstofa Kópavogs hvetur Kópavogsbúa til að taka vel á móti nýju tannlæknastofunni og aukinni þjónustu í hverfinu.

Nánari upplýsingar má finna hér.

Síðustu vikuna í nóvembermánuði stóð Kópavogsbær fyrir hreinusnarátaki á Kársnesi í samstarfi við fyrirtæki og byggingaraðila á svæðinu.

Endurvinnslugámum var komið fyrir við Bakkabraut 9 þar sem fyrirtæki gátu losað sig við málma, timbur, plast og pappa án kostnaðar. Starfsmenn áhaldahúss Kópavogs voru á svæðinu til að hirða rusl og annað dót sem var utan lóða og límdu aðvörunarmiða á bíla, gáma og aðra lausamuni sem voru í leyfisleysi á bæjarlandi.

Góð þátttaka var í átakinu og mikið magn af rusli, bílhræjum og öðrum úrgangi var fjarlægt af svæðinu og því komið til endurvinnslu.

Gaman var að sjá góða samstöðu um að gera umhverfið hreinna og snyrtilegra.

 

Neyðarþjónustan ehf. var stofnuð árið 1988 og verður því 30 ára á árinu.  Félagið var stofnað til að sinna almennri  lásasmíði, lásaviðgerðum og hvers konar neyðaropnunum, hvort sem um er að ræða húsnæði, bíla eða hirslur.

Fyrirtækið flytur nú að Skemmuveg 4 og mun reka þar verkstæði og verslun með lásatengdar vörur s.s. lykla, skrár, læsingar og hurðapumpur auk fleiri vara tengdum öryggisbúnaði og aðgangsstýringum. Forritun og smíði bíllykla er stór þáttur í starfseminni en einnig uppsetning, ráðgjöf og viðgerðavinna auk þess sem fyrirtækið sér um að loka vettvangi eftir innbrot og veðurtjón, m.a. með rúðuskiptum og viðgerðum á hurðum.

Hjá Neyðarþjónustunni starfa aðeins lásasmiðir með hreint sakavottorð sem fá bestu þjálfun sem í boði er hverju sinni. Lásasmiðir Neyðarþjónustunnar eru metnaðarfullir og leggja sig fram um að afla sér þekkingar á sínu sviði og fylgjast með nýjungum, enda örar tækniframfarir á þessu sviði.

“Barn í bíl” – Neyðarþjónustan veitir ókeypis lásaopnun þegar börn eru læst inni í bíl og vill fyrirtækið þannig sýna samfélagslega ábyrgð og senda jákvæð skilaboð til samfélagsins.

Fyrirtækið hefur vaxið jafnt og þétt og eru starfsmenn nú orðnir 14.

Markaðsstofa Kópavogs býður Neyðarþjónustuna velkomna í Kóapvoginn.

Tryggingastofnun Ríkisins er nú að flytja starfsemi sína frá miðbæ Reykjavíkur á miðsvæði höfuðborgarinnar í Smárahverfinu, en stofnunin verður til húsa að Hlíðarsmála 11. Hús­næðið tel­ur tæpa 2.600 fer­metra á fjór­um hæðum en meg­in­starf­semi Trygg­inga­stofn­un­ar verður á þrem­ur hæðum. Starfs­menn stofn­un­ar­inn­ar eru nú um 110 tals­ins.

Ekki er langt síðana að Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu flutti starfsstöð sína í Hlíðarsmára 1 og þá hefur Útlendingastofnun komið sér fyrir á Dalvegi 18 og Menntamálstofnun í Víkurhvarfi 3. Landsréttur var endurreistur í vesturbæ Kópavogs, að Vesturvör 2, þar sem Siglingastofnun og síðar Samgöngustofa voru til húsa og þá má einnig geta þess að Íslandsbanki flutti höfuðstöðvar sínar í nýja turninn við Smáralind á síðasta ári.

Það er af sem áður var þegar póstnúmerið 200 þótti ekki nógu gott fyrir ríkisstofnanir og t.d. er ekki langt síðan að Kópavogsbær sá ástæðu til að senda formlega kvörtun til Fjármálaráðueytisins og Fjármálaeftirlitsins vegna kvaða sem fram komu í auglýsingu fyrir nýtt húsnæði fyrir starfsemi FME, en þar voru póstnúmerin 101 til 108 tilgreind sem möguleg staðsetning.

Það er jákvæð þróun að stjórnendur ríkisstofnanna allra landsmanna skuli hafa áttað sig á því að stofnanir geti dafnað og skilað góðri þjónustu fyrir utan póstnúmerið 101. Kópavogsbúar taka fagnandi á móti nýjum fyrirtækjum og stofnunum og bjóða starfsfólk þeirra velkomið í Kópavoginn.

 

Að frumkvæði Markaðsstofu Kópavogs hafa íþróttafélögin Breiðablik, Gerpla og HK sameinast um akstur á yngstu félögum sínum frá frístundaheimilum skólanna á íþróttaæfingar félaganna. Akstur hófst mánudaginn 3. september og verður þjónustan veitt, foreldrum að kostnaðarlausu, alla daga sem frístundarheimili eru opin í vetur. Tveir bílar verða á ferðinni frá kl. 13:30 til kl. 16:30 með viðkomu á öllum frístudarheimilum bæjarins og íþróttasvæðum félaganna. Þjónustan er opin öllu börnum á leið í tómstundastarf á vegum félaga í Kópavogi óháð því hvort þau séu skráð á frístundarheimili.
Þessu metnaðarfulla verkefni er ætlað að auka samþættingu skóla og íþróttastarfs, stytta vinnudag yngstu grunnskólabarna, nýta íþróttamannvirkin enn betur og jafna aðgengi allra barna að heilbrigðu íþrótta- og æskulýðsstarfi. Þjónusta við foreldra mun aukast verulega auk þess sem umhverfismengun og sóun mun minnka með minna skutli á æfingar.
Síðustu ár hafa félögin hvert í sínu lagi og hvert með sínu sniði verið að veita þessum hópi akstursþjónustu. Félögin hafa nú, að frumkvæðo og með leiðbeinandi aðstoð frá Markaðsstofu Kópavogs, sameinast um aksturinn með það að markmiði að veita enn betri þjónustu. Kópavogsbær mun styðja verkefnið en Teitur Jónasson sem einnig sér um skólaakstur fyrir Kópavogsbæ mun sjá um aksturinn.

Aðalfundur Markaðsstofu Kópavogs 2018 var haldinn í Molanum mánudaginn 10. september sl.

Stjórnarformaður Markaðsstofunnar Anna María Bjarnadóttir setti fundinn og lagði til að Jón Halldórsson sæi um fundarstjórn og Björn Jónsson ritaði fundargerð og var það samþykkt samhljóða. Hún flutti síðan skýrslu stjórnar þar sem farið var yfir þau margbreytilegu verkefni sem Markaðsstofan hefur sinnt frá síðasta aðalfundi. Skýrslu stjórnar má finna í heild sinni í viðhengi hér fyrir neðan. Björn Jónsson fór yfir reikninga félagsins og í framhaldi opnaði fundarstjóri fyrir umræður um skýrslu stjórnar og reikninga félagsins. Góðar og málefnalegar umræður urðu um viðfangsefni Markaðsstofunnar og framtíðar áherslur í starfsemi hennar og voru mismunandi sjónarmið viðruð. Tillaga stjórnar um hækkun á aðildarfélagsgjaldi úr 12.500 kr í 15.000 kr. var samþykkt með þorra atkvæða. Þá voru tillögur stjórnar um minni háttar breytingar á samþykktum félagsins samþykktar samhljóða. Fundargerð aðalfundarins má finna í viðhengi hér fyrir neðan.

Kynnt var tilnefning Kópavogsbæjar á fjórum nýjum aðalmönnum í stjórn sem eru Helga Halldórsdóttir, Sigurður Sigurbjörnsson, Tómas Þór Tómasson og Elvar Bjarki Helgason. Úr stjórn fara Annna María Bjarnadóttir, Jón Halldórsson, Jónas Már Torfason og Jón Finnbogason ásamt varamönnum Þóru Ólafsdóttur og Auði Sigrúnardóttur. Anna María kvaddi sér hljóðs og bauð nýja stjórnarmenn velkomna að borðinu og þakkaði þeim sem hverfa á braut fyrir vel unnin störf og færði þeim blómvönd sem þakklætisvott fyrir þeirra framlag. Hún þakkaði Páli Ólafssyni skoðunarmanni reikninga sérstaklega fyrir góða aðstoð á árinu og færði honum blómvönd.  Anna var einnig leyst út með blómvendi í lok fundar og henni þakkað fyrir dugmikið starf.

Ný stjórn hélt sinn fyrsta fund miðvikudaginn 12. september og skipti þá með sér verkum þannig að Helga Halldórsdóttir var kjörinn formaður, Sigurður Sigurbjörnsson varaformaður og Tómas Hafliðason ritari stjórnar.

Aðalfundur Markaðsstofu Kópavogs, fundargerð.

Aðalfundur Markaðsstofu Kópavogs, skýrsla stjórnar.

Ársreikningur Markaðsstofu Kópavogs 2017.