Símamót Breiðabliks er stærsta knattspyrnumót sem haldið er árlega á Íslandi.
Mótið, sem er fyrir stúlkur, var haldið í 34. sinn í Smáranum dagana 12. til 15. júlí. Metþátttaka var á mótinu í ár og voru 328 lið skráð til keppni með rúmlega 2.200 stúlkur sem öttu kappi þessa þrjá daga, sem mótið fór fram. Alls voru leiknir 1.312 leikir og var spilað á 32 völlum föstudag, laugardag og sunnudag. Áætlað er að um 5.000 manns hafi verið á mótssvæðinu á hverri stundu á meðan mótið var í gangi.
Símamótið fór ekki framhjá okkur Kópavogsbúum þar sem viðvera gesta var ekki eingöngu bundin við íþróttasvæði Breiðabliks í Smáranum. Mörg keppnislið gistu í skólum bæjarins og mikil tjaldborg reis á Kópavogstúni þannig að leikmenn og aðstandendur þeirra voru vel sýnilegir um allan bæ. Mót af þessari stærðargráðu skapar aukin viðskipti í verslun og þjónustu eins og sjá mátti m.a. í sundlaugum bæjarins og í verslunum í Smárlind og Hamaborg.
Íþróttafélagið Breiðablik, starfsfólk þess og fjöldi sjálfboðaliða eiga mikið hrós skilið fyrir skipulagningu og framkvæmd á þessu glæsilega knattspyrnumóti.

 

 

 

 

 

 

 

 

Rakarastofan Herramenn hefur flutt starfsemi sína í Hamraborg 9 í Kópavogi.

Rakarastofan Herramenn er eitt elsta starfandi fyrirtæki í Kópavogi en það var stofnuð 9. desember árið 1961 af Torfa Guðbjörnssyni hárskera og rakarameistara. Gauti, sonur Torfa, fylgdi í fótspor föður síns og hefur starfað á stofunni frá 1981. Þriðja kynslóðin bættist við árið 2003 þegar sonur Gauta, Andri Týr, byrjaði að nema fagið. Í eitt ár unnu þessar þrjár kynslóðir saman á rakarastofunni en Torfi lést árið 2004. Frá fyrsta degi hefur rakarastofan verið í hjarta Kópavogs.

Rakarastofan Herramenn sérhæfir sig í snyrtingu fyrir herramenn á öllum aldri; hár, skegg, rakstur og hárþvottur. Við hvetjum alla karlmenn í Kópavogi til að kíkja í heimsókn og kynna sé frammúrskarandi þjónsutu þeirra Herramanna.

Nánari upplýsingar um Rakarastofuna Herramenn má finna á heimasíðu fyrirtækisins www.herramenn.is/

 

 

 

Nú er hafin markviss uppbygging utarlega á Kársnesinu í Kópavogi. Fyrir á svæðinu voru að mestu gamlar eignir sem nú hafa verið fjarlægðar og í staðin verða reist glæsileg íbúðarhús þar sem lögð er áhersla á vandaða hönnun og efnisval. Bryggjuhverfið er þegar vel á veg komið og reiknað er með að fyrstu íbúðir vestar á nesinu verði tilbúnar síðar á árinu.

Markaðsstofa Kópavogs í samstarfi við Kópavogsbæ og verktaka á svæðinu vinnur að gerð vefsíðu sem sýnir svæðið í þrívíðri mynd. Vefsíðan mun gefa gott yfirlit yfir heildarsvæðið en jafnframt verður mögulegt að þysja inn og skoða svæðið og einstaka eignir í nærmynd. Markaðsstofan vann sambærilegt verkefni fyrir Glaðheimasvæðið á síðasta ári sem skoða má á https://www.gladheimahverfid.is/.

 

 

 

Markaðsstofa Kópavogs boðaði rekstraraðila í Hamraborg til vinnufundar fimmtudaginn 17. maí sl. þar sem farið var yfir stöðu Hamraborgarinnar sem verslunar- og þjónustsvæðis.

Birgir Sigurðsson skipulagsstjóri Kópavogsbæjar fór yfir samþykkt bæjarráðs frá 23. mars sl. um „Hönnun á miðsvæði  á Kópavogshálsi“ og kynnti nokkrar skemmtilegar hugmyndir um breytingar á svæðinu. Góðar umræður urðu á fundinum, hugmyndir voru ræddar og fram komu góðar tillögur um það sem lagfæra má nú þegar. Theodóra Þorsteinsdóttir formaður bæjarráðs kom inn á fundinn og tók þátt í hugmyndaflugi um Hamraborg framtíðarinnar.

Markaðsstofan mun vinna frekar úr þeim fjölmörgu góðu hugmyndum sem fram komu og í framhaldi leggja fram tillögur til bæjaryfirvalda um aðgerðir til úrbóta, í samráði við rekstraraðila í Hamraborg. Allir sem hafa uppbyggjandi hugmyndir um það sem lagfæra má og bæta á Hamraborgarsvæðinu eru hvattir til að hafa samband við Markðsstofu Kópavogs, markdsstofa@kopavogur.is.

          

Skráðu þig hér.

 

Hvernig sköpum við sterka liðsheild?

Liðsheild er einn mikilvægasti þáttur fyrirtækja til að ná árangri. Góð liðheild getur ráðið úrslitum um árangur fyrirtækja og hvort þau ná að vaxa og dafna. Á þessum fyrirlestri mun Jón fjalla um hvernig við sköpum sterka liðsheild og fáum alla til að stefna að sama marki. Skemmtilegur fyrirlestur þar sem að við skoðum hvernig hægt er að byggja upp skemmtilega fyrirtækjamenningu – sem styður við markmið fyrirtækja.

Í boði verður léttur hádegismatur.

Viðburðurinn er í boði fyrir fyrirtæki í Kópavogi.

 

Árangur næst með samstarfi. Stundum hreppir einn sviðsljósið þótt yfirleitt hafi fleiri en einn og fleiri en tveir komið að verkefninu. Í viðskiptaumhverfinu sjáum við þetta vel: Steve Jobs vann með Steve Wosniak, Bill Gates með Paul Allen, Gunnar þurfti Gylfa, Tom þurfti Jerry og Simmi þurfti Jóa. Einstaklingurinn getur verið sterkur en samvinna og samstarf skapar samræðu sem skilar sér í betri árangri.

Gott samstarf

Hlutverk Markaðsstofu Kópavogs er í stuttu máli að vinna að því að gera Kópavog að eftirsóttasta bæjarfélaginu. Henni er ætlað að vera brú milli bæjarfélagsins og samfélagsins í Kópavogi.  Með góðu samstarfi við fyrirtæki, stofnanir og samfélagið í Kópavogi virkjar Markaðsstofan íbúana ásamt því að stuðla að kjöraðstæðum fyrir fyrirtæki, íþróttafélög og menningarstofnanir til að vaxa og dafna í Kópavogi í sátt við þá sem þar búa, reka fyrirtæki og starfa.  Þess vegna óskum við eftir samstarfi við fyrirtæki, hverfasamtök og önnur félög og stofnanir í bænum til að efla Kópavog.  Saman erum viðsterkari. Við hvetjum fyrirtæki í Kópavogi til samstarfs. Fyrsta skrefið er að gerast aðilar að Markaðsstofunni og þannig vildarvinur hennar eða hafa samband við okkur. Við munum á næstu vikum leita til fyrirtækja eftir samstarfi og erum þess fullviss til að okkur verði tekið vel. Markaðs- og kynningarstarf ásamt stefnumótun er hluti af þeirri þekkingu og reynslu sem býr á Markaðsstofunni. Upplýsingar um Markaðsstofuna, aðild að henni og hvernig hægt er að hafa samband er að finna á nýrri heimasíðu hennar:  markadsstofakopavogs.is.

Skemmtileg tækifæri

Fyrir rétt um ári síðan tók ég við framkvæmdastjórastarfi Markaðsstofunnar.

Í fyrstu vikunni í starfi skipulagði Markaðsstofan í samvinnu við HK, Breiðablik og Kópavogsbæ beina útsendingu frá Rútstúni þar sem 2000 manns komu saman og sáu Ísland spila við Frakkland í Evrópukeppninni í knattspyrnu. Stuttu síðar sagði einn ágætur íbúi við Elliðavatn við mig: „Heimir, veist þú nokkuð hvað er að gerast við Elliðavatn?  Ég skal bjóða þér í bíltúr“. Í bíltúrnum fann ég eggjabónda við Elliðavatn sem ræktar líka hunang og svo rakst ég á rótgróinn frumbyggja í Kópavogi stuttu síðar sem hafði ekki hugmynd um eggja- og hunangsstarfssemina frekar en ég. Við vitum ekki endilega af öllum þeim frábæru gæðum og skemmtilegu tækifærum sem eru í túnfætinum hjá okkur. Kópavogur teygir sig yfir langt svæði og það getur verið snúið að mynda eina heild með sterkum kjarna. Bærinn er hins vegar á í kjörstaðsetningu á miðju höfuðborgarsvæðisins þannig að tækifærin eru mikil.

Verkefni Markaðsstofunnar

Markaðsstofan skipulagði í samvinnu við fyrirtækin í Portinu við Nýbýlaveg velheppnaða vetrarhátíð í október sl. þar sem fullt var út úr dyrum.  Gestir nutu lifandi tónlistar, gæddu sér á ljúffengum mat í kertaljósastemmningu.  Ilmurinn af ristuðum möndlum fylltu vitin meðan fólk nældi sér í fallega hluti fyrir jólin.  Undanfarið hefur Markaðsstofan unnið stefnumótun og verkefnavali.  Eitt af þeim spennandi verkefnum sem framundan eru er tengt kynningum á nýjum hverfum í samvinnu við skipulagsstjóra og framkvæmdaaðila hverfisins.  Fljótlega verður Glaðheimahverfið, sem nú rís á hesthúsasvæðinu við Lindarhverfið, kynnt og á það vonandi eftir að vekja verðskuldaða athygli.  Framundan er Sjávarútvegssýning í Smáranum 13.-15. september þar sem Markaðsstofan tengir milli viðburðahaldara og bæjarfélagsins. Þar breytist íþróttasvæði í miðstöð viðskipta í sjávarútvegi þar sem búist er við yfir 15.000 gestum. Þetta er hægt þegar íþróttafélag, skóli og bæjarfélag vinna saman. Þetta sjáum við líka í tengslum við stóru tónlistarviðburðina í Kórnum.

Það er öflugt starf unnið í menningarhúsunum í Kópavogi og tækifæri til að styrkja stoðir margra þeirra góðu menningarviðburða sem eru í gangi í Kópavogi. Kársnesið er að tengjast með brú við 101 þar sem hægt verður að fara á milli á örfáum mínútum. 201 Smári er heillandi borgarhverfi sem nú rís við Smáralind, stærstu og öflugustu verslunarmiðstöð landsins.

Það er svo mörgu hægt að hrinda í framkvæmd í bæjarfélagi af þessari stærð og hægt að ná miklum slagkrafti.  Það vantar ekki hugmyndirnar.

Vinnum saman.