Árangur næst með samstarfi. Stundum hreppir einn sviðsljósið þótt yfirleitt hafi fleiri en einn og fleiri en tveir komið að verkefninu. Í viðskiptaumhverfinu sjáum við þetta vel: Steve Jobs vann með Steve Wosniak, Bill Gates með Paul Allen, Gunnar þurfti Gylfa, Tom þurfti Jerry og Simmi þurfti Jóa. Einstaklingurinn getur verið sterkur en samvinna og samstarf skapar samræðu sem skilar sér í betri árangri.
Gott samstarf
Hlutverk Markaðsstofu Kópavogs er í stuttu máli að vinna að því að gera Kópavog að eftirsóttasta bæjarfélaginu. Henni er ætlað að vera brú milli bæjarfélagsins og samfélagsins í Kópavogi. Með góðu samstarfi við fyrirtæki, stofnanir og samfélagið í Kópavogi virkjar Markaðsstofan íbúana ásamt því að stuðla að kjöraðstæðum fyrir fyrirtæki, íþróttafélög og menningarstofnanir til að vaxa og dafna í Kópavogi í sátt við þá sem þar búa, reka fyrirtæki og starfa. Þess vegna óskum við eftir samstarfi við fyrirtæki, hverfasamtök og önnur félög og stofnanir í bænum til að efla Kópavog. Saman erum viðsterkari. Við hvetjum fyrirtæki í Kópavogi til samstarfs. Fyrsta skrefið er að gerast aðilar að Markaðsstofunni og þannig vildarvinur hennar eða hafa samband við okkur. Við munum á næstu vikum leita til fyrirtækja eftir samstarfi og erum þess fullviss til að okkur verði tekið vel. Markaðs- og kynningarstarf ásamt stefnumótun er hluti af þeirri þekkingu og reynslu sem býr á Markaðsstofunni. Upplýsingar um Markaðsstofuna, aðild að henni og hvernig hægt er að hafa samband er að finna á nýrri heimasíðu hennar: markadsstofakopavogs.is.
Skemmtileg tækifæri
Fyrir rétt um ári síðan tók ég við framkvæmdastjórastarfi Markaðsstofunnar.
Í fyrstu vikunni í starfi skipulagði Markaðsstofan í samvinnu við HK, Breiðablik og Kópavogsbæ beina útsendingu frá Rútstúni þar sem 2000 manns komu saman og sáu Ísland spila við Frakkland í Evrópukeppninni í knattspyrnu. Stuttu síðar sagði einn ágætur íbúi við Elliðavatn við mig: „Heimir, veist þú nokkuð hvað er að gerast við Elliðavatn? Ég skal bjóða þér í bíltúr“. Í bíltúrnum fann ég eggjabónda við Elliðavatn sem ræktar líka hunang og svo rakst ég á rótgróinn frumbyggja í Kópavogi stuttu síðar sem hafði ekki hugmynd um eggja- og hunangsstarfssemina frekar en ég. Við vitum ekki endilega af öllum þeim frábæru gæðum og skemmtilegu tækifærum sem eru í túnfætinum hjá okkur. Kópavogur teygir sig yfir langt svæði og það getur verið snúið að mynda eina heild með sterkum kjarna. Bærinn er hins vegar á í kjörstaðsetningu á miðju höfuðborgarsvæðisins þannig að tækifærin eru mikil.
Verkefni Markaðsstofunnar
Markaðsstofan skipulagði í samvinnu við fyrirtækin í Portinu við Nýbýlaveg velheppnaða vetrarhátíð í október sl. þar sem fullt var út úr dyrum. Gestir nutu lifandi tónlistar, gæddu sér á ljúffengum mat í kertaljósastemmningu. Ilmurinn af ristuðum möndlum fylltu vitin meðan fólk nældi sér í fallega hluti fyrir jólin. Undanfarið hefur Markaðsstofan unnið stefnumótun og verkefnavali. Eitt af þeim spennandi verkefnum sem framundan eru er tengt kynningum á nýjum hverfum í samvinnu við skipulagsstjóra og framkvæmdaaðila hverfisins. Fljótlega verður Glaðheimahverfið, sem nú rís á hesthúsasvæðinu við Lindarhverfið, kynnt og á það vonandi eftir að vekja verðskuldaða athygli. Framundan er Sjávarútvegssýning í Smáranum 13.-15. september þar sem Markaðsstofan tengir milli viðburðahaldara og bæjarfélagsins. Þar breytist íþróttasvæði í miðstöð viðskipta í sjávarútvegi þar sem búist er við yfir 15.000 gestum. Þetta er hægt þegar íþróttafélag, skóli og bæjarfélag vinna saman. Þetta sjáum við líka í tengslum við stóru tónlistarviðburðina í Kórnum.
Það er öflugt starf unnið í menningarhúsunum í Kópavogi og tækifæri til að styrkja stoðir margra þeirra góðu menningarviðburða sem eru í gangi í Kópavogi. Kársnesið er að tengjast með brú við 101 þar sem hægt verður að fara á milli á örfáum mínútum. 201 Smári er heillandi borgarhverfi sem nú rís við Smáralind, stærstu og öflugustu verslunarmiðstöð landsins.
Það er svo mörgu hægt að hrinda í framkvæmd í bæjarfélagi af þessari stærð og hægt að ná miklum slagkrafti. Það vantar ekki hugmyndirnar.
Vinnum saman.