Aðalfundur Markaðsstofu Kópavogs 2018 var haldinn í Molanum mánudaginn 10. september sl.
Stjórnarformaður Markaðsstofunnar Anna María Bjarnadóttir setti fundinn og lagði til að Jón Halldórsson sæi um fundarstjórn og Björn Jónsson ritaði fundargerð og var það samþykkt samhljóða. Hún flutti síðan skýrslu stjórnar þar sem farið var yfir þau margbreytilegu verkefni sem Markaðsstofan hefur sinnt frá síðasta aðalfundi. Skýrslu stjórnar má finna í heild sinni í viðhengi hér fyrir neðan. Björn Jónsson fór yfir reikninga félagsins og í framhaldi opnaði fundarstjóri fyrir umræður um skýrslu stjórnar og reikninga félagsins. Góðar og málefnalegar umræður urðu um viðfangsefni Markaðsstofunnar og framtíðar áherslur í starfsemi hennar og voru mismunandi sjónarmið viðruð. Tillaga stjórnar um hækkun á aðildarfélagsgjaldi úr 12.500 kr í 15.000 kr. var samþykkt með þorra atkvæða. Þá voru tillögur stjórnar um minni háttar breytingar á samþykktum félagsins samþykktar samhljóða. Fundargerð aðalfundarins má finna í viðhengi hér fyrir neðan.
Kynnt var tilnefning Kópavogsbæjar á fjórum nýjum aðalmönnum í stjórn sem eru Helga Halldórsdóttir, Sigurður Sigurbjörnsson, Tómas Þór Tómasson og Elvar Bjarki Helgason. Úr stjórn fara Annna María Bjarnadóttir, Jón Halldórsson, Jónas Már Torfason og Jón Finnbogason ásamt varamönnum Þóru Ólafsdóttur og Auði Sigrúnardóttur. Anna María kvaddi sér hljóðs og bauð nýja stjórnarmenn velkomna að borðinu og þakkaði þeim sem hverfa á braut fyrir vel unnin störf og færði þeim blómvönd sem þakklætisvott fyrir þeirra framlag. Hún þakkaði Páli Ólafssyni skoðunarmanni reikninga sérstaklega fyrir góða aðstoð á árinu og færði honum blómvönd. Anna var einnig leyst út með blómvendi í lok fundar og henni þakkað fyrir dugmikið starf.
Ný stjórn hélt sinn fyrsta fund miðvikudaginn 12. september og skipti þá með sér verkum þannig að Helga Halldórsdóttir var kjörinn formaður, Sigurður Sigurbjörnsson varaformaður og Tómas Hafliðason ritari stjórnar.
Aðalfundur Markaðsstofu Kópavogs, fundargerð.
Markaðsstofa Kópavogs
Hlíðasmári 10
200 Kópavogi
Sími: 864 8830
markadsstofa@kopavogur.is
Kennitala: 560713-1180