Markaðsstofa Kópavogs og Íslandsbanki buðu forsvarsmönnum fyrirtækja í Kópavogi til morgunfundar þriðjudaginn 12 febrúar sl. kl. 8:00 til 9:00 í útibúi bankans að Hagasmára 3. Vel var mætt og fundarmenn áhugasamir um erindi Jóns Bjarka Bentssonar, aðalhagfræðings Íslandsbanka sem fór yfir efnahagshorfur fyrir þetta ár og hið næsta samkvæmt nýuppfærðri þjóðhagsspá Greiningar Íslandsbanka.

Eftir að Bjarki hafði lokið sínu erindi kynntu Eyrún Huld Harðardóttir og Ragnar Trausti Ragnarsson Meistaramánuð Íslandsbanka.

Boðið var uppá léttan morgunverð og fóru gestir vel upplýstir og mettir af fundinum.

Markaðsstofan þakkar Íslandsbanka fyrir góðar móttökur og þáttakendum fyrir mætinguna.

Tannlæknastofa Kópavogs hóf starfemi í Kórahverfinu nýlega. Stofan er staðsett á þriðju hæð í nýju og glæsilegu húsnæði við Vallarkór 4 (sama hús og Krónan) og er eina tannlæknastofan í póstnúmeri 203. Þess má geta að aðgengi fyrir fatlaða er mjög gott og næg bílastæði eru á staðnum. Nýja stofan er búin nýjustu tækjum og tækni og má m.a. nefna að í tannlæknastólnum er hægt að horfa á spjaldtölvu með hljóðdeyfandi heyrnatólum.

Tannlæknar stofunnar eru þau Birgir Pétursson og Kolbrún Edda Haraldsdóttir og munu þau bjóða uppá alla almenna tannlæknaþjónustu. Að sögn Birgis og Kolbrúnar verður lögð áhersla á góða persónulega þjónustu og verður m.a. opið fram á kvöld á fimmtudögum.

Markaðsstofa Kópavogs hvetur Kópavogsbúa til að taka vel á móti nýju tannlæknastofunni og aukinni þjónustu í hverfinu.

Nánari upplýsingar má finna hér.