Markaðsstofa Kópavogs og Kópavogsbær boðuðu rekstraraðila í ferðaþjónustu í Kópavogi til fundar til að ræða stöðu ferðaþjónustu í bænum. Á fundinn mættu fulltrúar ferðaþjónustu í Kópavogi, forsvarsmenn ferðamála hjá Kópavogsbæ ásamt fulltrúum frá Marakðsstofu Kópavogs.
Fundarstjóri var Björn Jónsson frá Markaðsstofu Kópavogs og fór hann í upphafi fundarins yfir tölulegar staðreyndi um umfang ferðaþjónustu í Kópavogi. Fram kom m.a. að í Kópavogi séu yfir 50 fyrirtæki starfandi í ferðaþjónustu og þar af séu a.m.k. 10 aðilar að bjóða gistiþjónustu. Áætlað umfang ferðaþjónustu í Kópavogi hleypur á milljörðum króna.
Sigríður Björg Tómasdóttir almannatengill Kópavogsbæjar og Soffía Karlsdóttir forstöðumaður menningarmála fóru yfir þær markaðsaðgerðir sem Kópavogur hefur staðið fyrir sl. ár í markaðssteningu á Kópavogi til erlendra ferðamanna og upplýstu fundinn um þær aðgerðir sem framundan eru.
Karen María Jónsdóttir forstöðumaður Höfuðborgarstofu kynnti verkefnið Reykjavik Loves, sem er samstarfsverkefni sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um markaðssetningu til erlendra ferðamanna. Hún kynnti vefsvæðið www.visitreykjavik.is og hvatti ferðaþjónustuaðila til að nýta sér þá möguleika sem vefurinn býður uppá. Hún upplýsti m.a. að rúmlega 1 milljón einstakir gestir hafi heimsótt vefinn á síðasta ári.
Jóhannes Þór Skúlason framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar upplýsti fundarmenn um framtíðarsýn SAF og áréttaði mikilvægi þess að skýr stefna sé mörkuð af stjórnvöldum og framtíðarsýn teiknuð upp. Hann lagði áherslu á að sveitarfélög móti sína eigin ferðamálastefnu sem þurfi þó að taka miða af sameiginlegri heildarstefnu fyrir greinina.
Í lok fundarins urðu góðar umræður um stöðu ferðaþjónustu í Kópavogi og ýmsar góðar tillögur komu fram um það sem betur megi gera í þessum málaflokki til að bæta hag heildarinnar. Fram kom skýr vilji aðila til að vinna sameiginlega að framgangi ferðaþjónustu í Kópavogi þar sem miklir hagsmunir séu undir og tækifæri til að gera betur séu til staðar.
Markaðsstofa Kópavogs þakkar þeim sem mættu á fundinn fyrir þátttökuna og frummælendum fyrir fróðleg og skemmtileg erindi.