Á ársfundi Markaðsstofu Kópavogs þann 10. september 2018 voru fjórir nýir stjórnarmenn tilnefndir af bæjarstjórn Kópavogsbæjar, þau Helga Hauksdóttir, Sigurður Sigurbjörnsson, Tómas Þór Tómasson og Elvar Bjarki Helgason. Fyrir í stjórn voru Svava Grímsdóttir, Eygló Karólína Benediktsdóttir og Tómas Hafliðason, kjörin á ársfundi 2017. Stjórn skipti með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund, þann 12. september sl. Helga Hauksdóttir var kosin formaður, Sigurður Sigurbjörnsson var kosinn varaformaður og Tómas Hafliðason var kosinn ritari. Eftir stjórnarfund dró Tómas Hafliðason stjórnarsetu sína til baka og sæti hans tók varamaður, Haraldur Teitsson. Á starfsári stjórnar voru haldnir fimm stjórnarfundir auk samskipta í gegnum tölvupóst og síma.

Einn starfsmaður er á launaskrá Markaðsstofunnar, Björn Jónsson, verkefnastjóri. Hann er í 75% starfshlutfalli. Starfsstöð Markaðsstofunnar er í Engihjalla 8, þar sem aðstaða er til móttöku gesta og minni funda. Bókhald er unnið af starfsmanni Markaðsstofunnar í kerfi Reglu ehf. og skoðunarmenn reikninga voru Ingólfur Arnarson og Páll Ólafsson, en Valborg Inga Guðsteinsdóttir mun taka við af Páli Ólafssyni, sem við þökkum góð störf.

Fjöldi aðildarfyrirtækja Markaðsstofunnar hefur staðið í stað síðastliðin ár og eru þau að jafnaði í kringum 80. Á síðasta ársfundi var ákveðið að hækka ársgjaldið úr 12.000 kr. í 15.000 kr. og virðist sú ákvörðun ekki hafa haft áhrif á fjölda aðildarfyrirtækja.

Verkefni Markaðsstofunnar eru af margvíslegum toga, bæði stór og smá. Rauði þráðurinn er hlutverk Markaðsstofunnar sem tengiliður á milli fyrirtæka í Kópavogi og Kópavogsbæjar til að vinna að sameiginlegum verkefnum sem báðir hafa hag af.

Á fyrsta stjórnarfundi kom fram vilji nýrrar stjórnar til þess að Markaðsstofan beitti sér í málefnum ferðaþjónustunnar. Í kjölfarið var rætt við helstu hagsmunaaðila og komið á samtali á milli þeirra og Kópavogsbæjar ásamt því að standa fyrir kynningu frá Höfuðborgarstofu, sem Kópavogsbær er aðili að, og Samtökum ferðaþjónustunnar. Það er ljóst að það er mikill vilji hjá ferðaþjónustaðilum í Kópavogi til þess að halda áfram með þetta verkefni. Markaðsstofan hefur komið að vinnu við innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna þar sem Kópavogsbær er leiðandi aðili á Íslandi. Gott samstarf hefur verið við forsvarsfólk þess verkefnis og framundan spennandi viðfangsefni. Í þessu samhengi má nefna að þann 11. september nk. mun Markaðsstofan standa fyrir fundi um samfélagslega ábyrgð í samvinnu við Kópavogsbæ og Festu. Þá hefur Markaðsstofan verið tengiliður á milli Kópavogsbæjar og fyrirtækja í ýmsum verkefnum sem snúa að ásýnd Kópavogs og má þar sérstaklega nefna hreinsunarátak á Kársnesi sem tókst sérlega vel. Auk þess sem nefnt hefur verið hafa verið haldnir fyrirtækjafundir og ýmsar kynningar á aðildarfyrirtækjum, m.a. í bæjarblöðunum í Kópavogi og á samfélagsmiðlum, auk ýmissar annarrar þjónustu og aðstoðar sem Markaðstofan hefur veitt aðildarfyrirtækjum og Kópavogsbæ.

Markaðsstofa Kópavogs er að langmestu leyti fjármögnuð af Kópavogsbæ. Ljóst er að ganga þarf til samninga við Kópavogsbæ til að tryggja langtímafjármögnun Markaðsstofunnar auk þess að vinna í að auka sjálfbærni hennar og auka fjölda aðildarfyrirtækja. Við hlökkum til að fá öfluga fulltrúa frá atvinnulífinu inn í stjórn og ég vil nota tækifærið að þakka þeim stjórnarmönnum sem nú hverfa úr stjórn fyrir sína vinnu.

Helga Hauksdóttir, stjórnarformaður

Aðalfundur Markaðsstofu Kópavogs 2019 verður haldinn miðvikudaginn 28. ágúst nk. kl. 12:00  í Molanum, Hábraut 2, 200 Kópavogi.

Á fundinum verða þrír fulltrúar fyrirtækja og einn til vara kjörnir í stjórn félagsins. Forsvarsmenn aðildarfélaga eru hvattir til að gefa kost á sér til stjórnarsetu næstu tvö árin.

Dagskrá aðalfundar:
1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
2. Skýrsla stjórnar
3. Reikningar félagsins 2018
4. Ákvörðun árgjalds
5. Kosning fulltrúa fyrirtækja í stjórn
6. Kosning skoðunarmanns reikninga og eins til vara
7. Önnur mál

Samkvæmt 7. gr. samþykktar Markaðsstofu Kópavogs eiga þeir sem greitt hafa árgjald félagsins kjörgengi og kosningarétt á aðalfundinum.  Þeir sem vilja gerast aðilar fyrir aðalfund félagsins geta haft samband með tölvupósti á markadsstofa@kopavogur.is eða í síma 864 8830.

Allir aðildarfélagar að Markaðsstofu Kópavogs eru boðnir hjartanlega velkomnir á fundinn.