Markaðsstofa Kópavogs óskar

Kópavogsbúum og  landsmönnum öllum

Gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

Hátæknifyrirtækið Teledyne Gavia ehf., sem framleiðir ómannaða kafbáta, er staðsett á Kársnesinu í Kópavogi. Fyrirtækið er í eigu bandaríska fyrirtækisins Teledyne Technologies Incorporated.

Fyrirtækið framleiðir kafbáta sem sigla ómannaðir og er þeim ætlað að leysa verkefni neðansjávar, verkefni sem ekki er hagkvæmt að framkvæma með stærri og dýrari lausnum. Viðfangsefnin geta verið hernaðarleg, viðskiptaleg eða tengd björgunarstörfum. Kafbátarnir eru búnir skynjurum og öðrum hátæknibúnaði til að skoða, mynda og  rannsaka svæði neðansjávar. Bátarnir eru samsettir úr nokkrum sérhæfðum einingum, sem hægt er að skipta út og setja inn nýja sérhannaða huta í staðinn en þessi eiginleiki eykur sveigjanleika og notagildi bátanna mikið. Í framleiðslu eru tvær tegundi báta, minni báturinn, Gavia AUV, vegur um 70 til 120 kg. en hinn, SeaRaptor AUV, er mun stærri og vegur tæplega 1,1 tonn. Bátar frá fyrirtækinu hafa m.a. verið notaðir til að leita að sprengjum neðansjávar, til að leysa ýmis verkefni við olíuleit og vinnslu auk þess að hafa nýst við leit að flökum eftir flug- og sjóslys. Markaðssvæði fyrirtækisins er heimurinn allur og núverandi viðskiptavinir eru ríkisstjórnir og stórfyrirtæki í Evrópu, Ameríku og Asíu.

Hjá fyrirtækinu starfa 20 manns og sinnir um helmingur þeirra eingöngu vöruþróun og prófunum. Margir starfsmenn eru með mikla og sérhæfða menntun og ljóst að ekki er mikið framboð af störfum sem krefjast þeirrar þekkingar á Íslandi. Störf sem Teledyne Gavia og önnur fyrirtæki í hátæknigeiranum skapa eru því mjög mikilvæg fyrir atvinnulífið í Kópavogi og á Íslandi.

Fyrirtækið bauð utanríkisráðherra Guðlaugi Þór Þórðarsyni og Ármanni Kr. Ólafssyni bæjarstjóra Kópavogs í heimsókn þar sem starfsemin var kynnt og framleiðsluvörur þess sýndar.

Á myndinni eru Stefán Reynisson framkvæmdastjóri ásamt Ármanni Kr. Ólafssyni bæjarstjóra og Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra.