Á síðustu árum hefur umferð á höfuðborgarsvæðinu aukist verulega og nú er svo komið að á álgstímum færist umferðin áfram á gönguhraða.  Skipulagsyfirvöld eru ekki að ná tökum á viðfangsefninu, bættar samgöngur virðast kalla á fleiri bíla og illa gengur að auka notkun almannasamgangna. Lausnir miða allar að því að stækka og auka flutningsgetu kerfisins.

Hvers vegna eru umferðahnútar á morgnana og síðdegis? Hver er rót vandans?

Rót vandans liggur í því að starfsfólk býr í úthverfum en sækir vinnu miðsvæðis í Reykjavík.

Er ekki meiri skynsemi í að greina rót vandans og leysa hið raunverulega  viðfangsefni frekar en að vera stöðug að glíma við afleiðingarnar með plástrum og verkjalyfjum. Rót vandans liggur í því að of stór hluti atvinnlífsins er miðsvæðis í Reykjavík og því liggur umferðaþunginn niður í bæ á morgnanna og til baka í úthverfin í lok dags, þegar starfsfólk heldur til og frá vinnu. Hin raunhæfa lausn liggur í því að byggja upp og styrkja atvinnulíf í úthverfum höfuðborgarinnar, á svæðum sem staðsett eru í námunda við stofnbrautir. Þegar straumar liggja jafnt í allar áttir verður nýting umferðarmannvirkja betri, flöskuhálsar leysast og flæði í umfeðinni verður þannig að umferðartími til og frá vinnu styttist. Leiða má sterk rök að því að áhersla á uppbyggingu atvinnusvæða í Kópavogi og öðrum svæðum utan miðbæjarkjarnanns sé mikilvægt innlegg til að nýta umferðarmannvirki betur, jafna umferðarálag og spara vegfarendum dýrmætan tíma.

Við Kópavogsbúar njótum góðs af því að síðustu ár hefur uppbygging atvinnulífs verið mikil í bæjarfélaginu og nú er svo komið að framboðin störf í bænum eru nægjanleg til að uppfylla eftirspurn bæjarbúa á vinnumarkaði. En auðvitað er það ekki svo að Kópavogsbúar sæki vinnu í Kópavogi og íbúar annarra bæjarfélaga í sínum heimabæ. Höfuðborgarsvæðið er eitt atvinnusvæði og fólk sækir sína atvinnu þangað sem tækifærin gefast og hverjum best passar.

Kópavogsbær er að vinna gott og markvisst starf við innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og er leiðandi aðili í þeirri vegferð á Íslandi. Uppbygging öflugs atvinnulífs í Kópavogi styður innleiðingu heimsmarkmiðanna og er mikilvægur þáttur í því að gera bæjarfélagið sterkara og Kópavog að betri stað til að búa í. Störf í heimabyggð leiða til minni aksturs á álagstímum og létta þannig á umferðarþunga með jákvæðum umhverfisáhrifum. Tímann sem sparast má nýta til samveru með fjölskyldu eða til heilsueflingar og morgunstressinu breya í gæðastundir. Störf í nærumhvefi einfalda lífið og leiða til aukinnar atvinnuþátttöku vegna nálægðar heimilis, skóla/leikskóla og vinnustaðar og stuðla þannig að auknu jafnrétti, þar sem fjölskyldur með ung börn og jaðarhópar fá betri aðgang og fleiri atvinnutækifæri.

Hugsum í lausnum og hættum að hnýta umferðarhnúta.

Viðtal við Sigurð Sigurbjörnsson varaformann stjórnar Markaðsstofu Kópavogs.

Kópavogur er sjálfbær hvað varðar fjölda framboðinna starfa í bænum, hvort sem litið sé til fjölda launþega í Kópavogi eða á hlutfall veltu fyrirtækja í Kópavogi af heildarumsvifum á íslenskum fyrirtækjamarkaði. Þetta sýna tölur sem Markaðsstofa Kópavogs hefur tekið saman. „Við höfum oft þurft að hlusta á fullyrðingar um að bærinn okkar sé svefnbær þar sem íbúar þurfi að sækja vinnu og þjónustu í önnur sveitarfélög. Þessar fullyrðingar eru rangar og haldið fram af þeim sem ekki þekkja til mála í Kópavogi,“ segir Sigurður Sigurbjörnsson, varaformaður stjórnar Markaðsstofu Kópavogs. Hann bendir á að um síðustu áramót hafi skráðir Íslendingar verið 366 þúsund talsins skv. Tölum Hagstofu Íslands og Kópavogsbúar verið 37 þúsund, eða rúmlega 10% landsmanna. Hlutfallið er aftur á móti hærra þegar kemur að fyrirtækjum en að sögn Sigurðar eru 10,8% skráðra rekstraraðila með lögheimili í Kópavogi og launþegar í Kópavogi eru 10,3% af heildarfjölda skráðra launþega á á landinu. „Heildarvelta fyrirtækja í Kópavogi er um 12% af heildarumsvifum á íslenskum fyrirtækjamarkaði. Það er því óhætt að fullyrða að Kópavogur sé sjálfbær hvað varðar fjölda framboðinna starfa í bænum,“ segir Sigurður.

Aðspurður segir Sigurður að upplýsingarnar komi honum ekki á óvart þar sem atvinnulíf í bænum sé mjög öflugt og fyrirtæki og stofnanir hafi verið að flytja til bæjarins síðustu árin. „Í dag eru margir sterkir verslunar- og þjónustukjarnar í bæjarfélaginu og segja má að þjónustusvæðið frá Smiðjuvegi niður Dalveginn og yfir í Smárann og Lindir sé miðpunktur höfuðborgarsvæðisins, með Smáralindina sem þungamiðju. Það er einnig mjög jákvætt að rekstraraðilar eru staðsettir um allan Kópavog og fjölbreytt þjónusta nær því til allra hverfa bæjarins. Í Kópavogi eru starfandi fyrirtæki í öllum helstu greinum verslunar og þjónustu, auk framleiðslu- og tækni, allt frá stórum og rótgrónum aðilum til spennandi sprota- og nýsköpunarfyrirtækja,“ segir Sigurður og bætir við að sérstaklega sé það ánægjulegt að sjá stórfyrirtæki og opinberar stofnanir velja Kópavog sem staðsetningu fyrir höfuðstöðvar sínar. „Við sem hér búum vitum að Kópavogur er bær sem er fullur af lífi og spennandi tækifærum,“ segir Sigurður að lokum.

Viðtalið birtist í Vogum, blaði sjálfstæðismanna í Kópavogi í desember 2019.