Ellefu fyrirtæki í Kópavogi hafa skrifað undir viljayfirlýsingu um innleiðingu  Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun inn í sína starfsemi. Markaðsstofa Kópavogs heldur utan um verkefnið í samvinnu við Kópavogsbæ, sem hefur unnið að innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2018.

Fyrirtækin sem hafa skrifað undir eru Íslandsbanki, Reginn, Sky Lagoon,Prófító bókhaldshús, BYKO, Festi, Valka, Mannvit, Tryggingastofnun, Hótel Kríunes og Brunabótafélag Íslands, eignarhaldsfélag.

„Það er ánægjulegt að finna þennan mikla áhuga hjá fyrirtækjum í Kópavogi á svona mikilvægu samfélagsmáli sem innleiðing Heimsmarkmiðanna er,“ segir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri í Kópavogi.

Verkefninu var formlega hleypt af stokkunum á fundi Kópavogsbæjar í dag sem haldinn var í tilefni útgáfu skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, um þátttöku Kópavogsbæjar í alþjóðlegu verkefni OECD um innleiðingu Heimsmarkmiðanna hjá sveitarfélögum og þróun mælikvarða því tengdu.

Samstarf um innleiðingu Heimsmarkmiðanna hjá fyrirtækjum er einn afrakstur þátttöku bæjarins í verkefninu. Rýnihópur fyrirtækja undir handleiðslu Markaðsstofunnar forgangsraðaði þeim átta heimsmarkmiðum sem valin voru í verkefnið.

„Markaðsstofa Kópavogs hvetur fyrirtæki og stofnanir í bænum til að innleiða heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna í stefnu sína og daglegan rekstur og sýna þannig samfélagslega ábyrgð í verki. Allir vinni saman að því að bæta umhverfið og samfélagið og gera Kópavog, Ísland og heiminn allan að betri stað til að búa og starfa í,“ segir Björn framkvæmdastjóri Markaðsstofu Kópavogs.

Nánar má lesa um verkefnið hér.

Fjölskylduveitingastaðurinn 20&SJÖ mathús & bar við Víkurhvarf 1 í Kópavogi var opnaður í mars síðastliðnum af hjónunum Helga Sverrissyni og Arndísi Þorgeirsdóttur og syni þeirra Hring. Staðurinn, sem er rúmgóður og fallega innréttaður með gott útsýni yfir Elliðavatn, hefur fengið góðar viðtökur hjá íbúum hverfisins og annarra sælkera sem margir koma langt að til að njóta góðra veitinga.

Helgi er yfirmatreiðslumaður 20&SJÖ. „Við bjóðum upp á fjölbreyttan mat og áhrifin eru alls konar, svo sem frá Suðurríkjum Bandaríkjanna og frá löndunum við Miðjarðarhaf. Við eldum svínarif og pastrami í Tennessee-reykofninum okkar. Við reykjum líka lambakjöt og veganrétti í ofninum. Við notum íslenskt birki til að ná fram góðu reykbragði, og síðan er kjötið eldað við lágan hita í langan tíma, eða „low & slow“ eins og sagt er í Ameríku,“ segir Helgi og bætir við að kryddblöndur og sósur séu lagaðar frá grunni í eldhúsinu. „Við erum auk þess með vandað og gott úrval léttvína.“

Helgi segir fjölbreytta veganrétti að finna á matseðlinum og njóti þeir vinsælda. Þá er að sjálfsögðu barnamatseðill og barnahorn enda fjölskyldur velkomnar á staðinn.

20&SJÖ er opinn fram á kvöld miðvikudaga til sunnudaga, lokað er á mánudögum og þriðjudögum. Hamingjustund, þar sem tapas fylgir drykk, er alla daga og bröns á laugardögum.

„Við erum þakklát fyrir frábærar móttökur gesta, ekki síst héðan úr næsta nágrenni. Þetta hefur verið ánægjulegur tími þótt samkomubönn og slíkt hafi spilað rullu í starfseminni. Við lítum björtum augum til framtíðar og hlökkum til að þjóna gestum um ókomna tíð,“ segir Helgi Sverrisson.