Fyrir tveimur árum varð Kópavogsbær þátttakandi í þessu spennandi og mikilvæga verkefni. Í skýrslu OECD um stöðu Kópavogs í innleiðingarferli Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálf bæra þróun kemur fram að frammistaða bæjarins er vel yfir meðaltali OECD. „Innleiðing heimsmarkmiðanna er komin vel á veg í starfsemi bæjarfélagsins og undirstofnunum þess. Merki um það má finna í starfsemi leik- og grunnskóla, við vinnslu nýrra draga að aðalskipulagi, tilkomu geðræktarhúss, innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og með norrænu samstarfi menningarhúsa á Norðurlöndunum, sem Kópavogur leiðir,“ upplýsir Auður Finnbogadóttir, verkefnastjóri stefnumótunar hjá Kópavogsbæ.

FYRIRTÆKI OG STOFNANIR Í KÓPAVOGI UNDIRRITA VILJAYFIRLÝSINGU UM INNLEIÐINGU HEIMSMARKMIÐA SAMEINUÐU ÞJÓÐANNA

Til að árangur verkefnisins verði sem allra mestur er mikilvægt að fyrirtæki og stofnanir í bæjarfélaginu taki höndum saman og styðji við innleiðingu heimsmarkmiðanna með samstilltum aðgerðum. Markaðsstofa Kópavogs hefur nú farið af stað með verkefni þar sem rekstraraðilar í bæjarfélaginu eru hvattir til að máta heimsmarkmiðin við sinn rekstur og velja þau heimsmarkmið sem best passa þeirra starfsemi. Markaðsstofan mælir með því að þau heimsmarkmið sem valin hafa verið til skráningar í sameiginlegum gagnagrunni verði höfð í forgangi ef mögulegt er. Markmiðin voru valin með aðstoð rýnihóps aðildarfélaga Markaðsstofunnar og eru þau heimsmarkmið sem helst tengjast daglegum rekstri fyrirtækja og stofnana og talið er að rekstraraðilar geti haft mest jákvæð áhrif á. Þátttakendur í verkefninu eru hvattir til að ná mælingu á núverandi stöðu í ýmsum þáttum starfsemi sinnar og setja sér jafnframt markmið um framfarir til ársins 2024.

Verkefninu var formlega hleypt af stokkunum í lok septembermánaðar þegar ellefu fyrirtæki undirrituðu viljayfirlýsingu um innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Fyrirtækin eru Íslandsbanki, Reginn, Sky Lagoon,Prófító bókhaldshús, BYKO, Festi, Valka, Mannvit, Tryggingastofnun, Hótel Kríunes og Brunabótafélag Íslands. Fleiri aðilar hafa nú bæst í hópinn.

Með verkefninu vill Markaðsstofa Kópavogs hvetja fyrirtæki og stofnanir í bænum til að innleiða heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna í stefnu sína og daglegan rekstur og sýna þannig samfélagslega ábyrgð í verki. Allir vinni saman að því að bæta umhverfið og samfélagið og gera Kópavog, Ísland og heiminn allan að betri stað til að búa og starfa í.

„Það er ánægjulegt að finna þennan mikla áhuga hjá fyrirtækjum í Kópavogi á svona mikilvægu samfélagsmáli sem innleiðing Heimsmarkmiðanna er,“ segir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri í Kópavogi.

Nýtt baðlón rís nú á Kársnesi í Kópavogi og hefur það fengið nafnið Sky Lagoon. Um er að ræða eina af stærstu framkvæmdum í ferðaþjónustu síðustu ára. Framkvæmdir ganga vonum framar og hefur Sky Lagoon verið að ráða til sín starfsfólk á síðustu misserum. Strax frá byrju mun Sky Lagoon innleiða heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna og hefur viljayfirlýsing verið undirrituð af aðilum frá Markaðsstofu Kópavogs og Sky Lagoon. Það er jákvætt að fyrirtækið tileinki sér markmiðin strax frá byrjun og innleiði þau inní daglegan rekstur og stefnu.

Sky Lagoon er nýr og glæsilegur baðstaður með heitu lóni við sjóinn og einstöku útsýni á ysta odda Kársnessins í Kópavogi. Þar geta gestir slakað á og notið þess áhrifaríkasta sem íslensk náttúra hefur upp á að bjóða. Í Sky Lagoon fléttast orka jarðhitans og kraftar hafsins saman við hlýjar móttökur í notalegri umgjörð þar sem töfrandi hönnun á heimsmælikvarða orkar á öll skilningarvitin.

Íslensk baðmenning er svo mikilvægur hluti af okkar menningu, við sjálf erum dugleg að nýta okkur hana til slökunar og endurnæringar og erlendir gestir okkar eru forvitnir og vilja kynnast þessum spennandi menningararfi okkar Íslendinga. Í Sky Lagoon verður hægt að fara í gegnum þessar endurnærandi hefðir m.a. í einstakri Sauna upplifun, gufuböðum, köldum böðum og mistri.

Hvort sem það eru bjartar sumarnætur, dimmir vetrardagar, þá er svo margt af því sem fólki finnst einstakt við Ísland sem mun sameinast í Sky Lagoon.  Séríslenskur ævintýraheimur innan um kletta með magnað útsýni yfir hafið, skerin og nesin, verandi samt á höfuðborgarsvæðinu. Þessi staðsetning er mögnuð þar sem gulur og bleikur himinn sést í sólsetri, sjórinn lemst utan í varnargarðinn, kyrrðin er einstök í góðu veðri og þessi óendanlega sýn; Keilir, Reykjanesið, Bessastaðir, Snæfellsjökull, sjórinn skerin, öldurnar og himininn sem tekur stöðugum breytingum. Himinninn er svo óvænti þátturinn í upplifuninni. Sólin brýst í gegnum skýin,rigningin í fjarska sem myndar fallegt mynstur þar sem hafið og himininn sameinast.

Baðlónið verður með 70 metra löngum óendanleikakanti sem gefur þá tilfinningu að lónið sameinist við sjóinn þegar horft er úr lóninu.

Sky Lagoon á að vera fullkomið til slökunar og endurnæringar í íslenskri náttúru sem umlykur gesti en búast má við að kópavogsbúar geti notið þess að koma í Sky Lagoon á vormánuðum 2021.

 

Vefsíða: https://www.skylagoon.com/

Myndband: https://youtu.be/tsR5mhzhdpA

Þekking hf. hefur skrifað undir viljayfirlýsingu um innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna
um sjálfbæra þróun. Þekking hefur því bæst í hóp fjölmargra rekstraraðila í Kópavogi sem hafa einnig staðfest
viljayfirlýsingu um innleiðingu heimsmarkmiða og vinna þannig að því að gera Ísland og heiminn allan að betri stað til að búa og starfa í. Markaðsstofa Kópavogs hefur haft frumkvæði að því að hvetja rekstraraðila í Kópavogi til að sýna ábyrgð í verki með því að ná mælingu á núverandi stöðu í ýmsum þáttum starfsemi sinnar og setja sér jafnframt markmið um framfarir til ársins 2024.

Þekking hefur undanfarin ár haft umbótastarf að leiðarljósi og markmið því tengdu, það mun því nýtast vel í komandi vinnu. Með þátttöku okkar höfum við samþykkt að veita Markaðsstofu Kópavogs upplýsingar um markmið
okkar sem og árlegar árangursmælingar og samþykkjum að upplýsingarnar verða skráðar í
sameiginlegan gagnabanka á vegum Markaðsstofu Kópavogs.

Á myndinni er Stefán Jóhannesson, framkvæmdastjóri Þekkingar.

Á myndinni er Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri að veita Sigurði B. Pálssyni, forstjóra BYKO og Berglindi Ósk Ólafsdóttir verkefnastjóra umhverfismála viðurkenningu Umhverfis og samgöngunefndar Kópavogs fyrir framlag BYKO til umhverfismála og vera þannig leiðarljós fyrir önnur fyrirtæki í Kópavogi.

Byko er leiðandi aðili í atvinnulífi Kópavogs. Fyrirtækið er nú í fylkingarbrjósti fyrirtækja sem undirritað hafa viljayfirlýsingu um  innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun Í samstarfi við Markaðsstofu Kópavogs og Kópavogsbæ. Vistvænt BYKO er hugtak sem lýsir því hvernig fyrirtækið vinnur að umhverfismálum í eigin starfsemi og í samstarfi við birgja og viðskiptavini.

Á miðju ári 2019 hóf BYKO að skilgreina hvaða Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna væru viðeigandi fyrir starfsemi fyrirtækisins. Markmið verkefnisins var tvíþætt, annars vegar að auka skilning á Heimsmarkmiðunum og hvernig þau hafa áhrif á starfsemi BYKO og hins vegar að skilgreina þau kjarnamarkmið sem BYKO hafi að leiðarljósi í framtíðinni. Eftir að hafa mátað heimsmarkmiðin 17 við starfsemi fyrirtækisins voru eftirtalin fjögur heimsmarkmið valin sem kjarnamarkmið BYKO ásamt undimakmiðum sem horfa skal sérstaklega til við innleiðingu þeirra.

  • Heimsmarkmið 5 – Jafnrétti kynjanna.
    Minnka kynjaskiptingu starfa á vinnumarkaði og kynbundið námsval.
    Minnka misvægi kynja í efstu lögum atvinnulífsins.
    Hækka hlutfalla feðra sem taka fæðingarorlof.
  • Heimsmarkmið 8 – Góð atvinna og hagvöxtur.
    Aukin framleiðni í sátt við umhverfi og samfélag.
    Jöfn tækifæri og jöfn laun fyrir sömu vinnu.
  • Heimsmarkmið 9 – Nýsköpun og uppbygging
    Unnið verði markvisst að því að gera starfsemina sjálfbæra, nýting auðlinda verði skilvirkari og fyrirtækið innleiði umhverfisvæna tækni og verkferla eftir bestu getu.
  • Ábyrg neysla og framleiðsla – markmið 12
    Markmið 12 er meginmarkmiðið fyrir BYKO þar sem flestum öðrum markmiðum er hægt að ná með ábyrgri neyslu og framleiðslu. Sóun er stórt umhverfisvandamál og til að sporna við sóun verður unnið að skilvirkri og sjálfbærri nýting náttúruauðlinda m.a. með því að að tryggja að nýting auðlinda fari ekki yfir þolmörk náttúrunnar, minnkun úrgangs, aukinni endurvinnslu og endurnýtingar sem er afleiðing hringrásarhagkerfisins.

Tengt ofangreindum Heimsmarkmiðum og áskorunum á Íslandi hefur BYKO sett sér mælanleg og tímasett markmið sem unnið verður markvisst að á næstu misserum.

„Að okkar mati eru Heimsmarkmið Sameinuðuþjóðanna um sjálfbæra þróun frábært verkfæri til að fá viðskiptavini og starfsfólk til að vinna sameiginlega að betra samfélagi með minni sóunar og betri nýtingu allra aðfanga að leiðarljósi“ segir Berglind Ósk Ólafsdóttir verkefnastjóri umhverfismála hjá BYKO.

Markaðsstofan fagnar framsýni og faglegum vinnubrögðum BYKO og hvetur aðra rekstraraðila til að feta í þeirra fótspor.