Kópavogur er þátttakandi í markaðsverkefninu „Reykjavik Loves“ þar sem höfuðborgarsvæðið er kynnt sem ein heild gangvart erlendum ferðamönnum. Höfuðborgarstofa stýrir verkefninu í samvinnu við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og er markmið þess er að dreifa ferðamönnum betur um höfuðborgarsvæðið og stuðla þannig að betri nýtingu þjónustu og afþreyingar.

Hin ýmsu svæði höfuðborgarinnar eru kynnt undir nafni Reykjavíkur með skírskotun til sérstöðu hvers svæðis. Kópavogsháls er kynntur sem „Culture Hill“, sem útleggja má sem menningarhæð, en þar er lögð áhersla á að kynna menningarhús Kópavogs ásamt Kópavogskirkju og Sundlaug Kópavogs. Menningarhúsin eru Gerðarsafn, Náttúrufræðistofa Kópavogs, Bókasafn Kópavogs og Salurinn.

Ferðamenn gera notið góðra veitinga hjá Pure Deli í Gerðarsafni en þar er m.a. mjög skemmtilegt útisvæði á túninu að vestanverðu við menningarhúsin og einnig er stutt í önnur veitingahús og verslanir í Hamraborg.

Töluvert margir ferðamenn heimsækja svæðið, sem er vel tengt við almenningssamgöngur. Þótt að svæðið sé sérstaklega markaðssett til erlendra ferðamanna er það einnig spennandi fyrir innlenda ferðamenn og tilvalið er fyrir heimafólk að gerast ferðamenn einn eftirmiðdag á menningahæðinni á Kópavogshálsi.

Sjá nánar um „Culture Hill“ á vefsvæðinu www.visitreykjavik.is/culture-hill.