Þvegillinn er fjölskyldufyriræki sem var stofnað af Gunnlaugi Einassyni og fjölskyldu árið 1969 og er fyrirtækið því 50 ára nú í ár. Fyrirtækið var stofnað á heimili Gunnlaugs við Álfhólsveg og hefur alltaf verið með heimilisfesti í Kópavogi. Helstu verkefnin Í upphafi voru að hreingera og bóna sjúkra- og skurðstofur á Borgarspítalanum í Fossvogi en fljótlega bættust við verkefni í öðrum stofnunum, fyrirtækjum og heimahúsum. Árið 2000 tóku Einar Gunnlaugsson húsasmíðameistari og Magnea Geirsdóttir við rekstri fyrirtækins og 2003 hóf Gunnlaugur Einarssonar sonur þeirra einnig störf hjá fyrirtækinu og má því segja að þrjár kynslóðir hafi starfað við reksturinn. Verkefnum hefur fjölgað jafnt og þétt og þau eru orðin fjölbreyttari og flóknari með tilheyrandi tækjabúnaði. Þvegillinn er kominn í húsnæði við Nýbýlaveg 14 í Kópavogi þar sem m.a. er góð þvottaaðstaða og aðstaða til að hreinsa húsgögn auk þess sem þar fer vel um starfsfólkið.

„Við höfum mikla reynslu í að hreingera heimili, sameignir, fyrirtæki og sumarhús auk sérhæfðari verkefna á sjúkrahúsum, álverum og hreingerningum um borð í skipum og flugvélum. Starfsfólkið okkar er að sjálfsögðu ómissandi, það  er vel þjálfað, með hreina sakaskrá og gerir alltaf sitt besta. Við leggjum okkur fram um að skapa gott starfsumhverfi með góðum aðbúnaði og jákvæðum samskiptum og hefur sama fólkið starfað hjá fyrirtækinu árum saman“ segir Einar Gunnlaugsson stoltur af fyrirtækinu og sínu fólki.

Markaðsstofa Kópavogs óskar fjölskyldunni til hamingu með 50 árin sem setur fyrirtækið í hóp elstu starfandi fyrirtækja í bænum.