Aðalfundur Markaðsstofu Kópavogs 2020 var haldinn miðvikudaginn 27. maí í Molanum, Hábraut 2, 200 Kópavogi. Á dagskrá voru hefðbundin aðalfundarstörf. Helga Hauksdóttir formaður stjórnar flutti skýrslu stjórnar og lagði ársreikning fram til samþykktar. Engar breytingar urðu á stjórn félagsins. Undir liðnum önnur mál var m.a. rætt um stofnsetningu Atvinnu- og nýsköpunarseturs í Kópavogi og lagningu göngustíga við Elliðavatn og út frá Guðmundarlundi.

Skýrsla stjórnar Markaðsstofu Kópavogs starfsárið 2019 – 2020

Á ársfundi Markaðsstofu Kópavogs þann 28. ágúst 2019 voru þrír nýir stjórnarmenn kosnir af aðildarfyrirtækjum Markaðsstofu Kópavogs, þau Björn Ingi Stefánsson, Tinna Jóhannsdóttir og Þórunn Hildur Þórisdóttir, til vara Katrín Helga Reynisdóttir. Fyrir í stjórn voru Helga Hauksdóttir, Sigurður Sigurbjörnsson, Tómas Þór Tómasson og Elvar Bjarki Helgason, tilnefnd af Kópavogsbæ á ársfundi 2018.

Stjórn skipti með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund, þann 5. september sl. Tinna Jóhannsdóttir var kosin ritari og Tómas Tómasson gjaldkeri. Helga Hauksdóttir var áfram formaður stjórnar og Sigurður Sigurbjörnsson varaformaður.

Á starfsári stjórnar voru haldnir sjö stjórnarfundir auk samskipta í gegnum tölvupóst, síma og á samskiptamiðlum.

inn starfsmaður er á launaskrá Markaðsstofunnar, Björn Jónsson, verkefnastjóri. Hann er í 75% starfshlutfalli. Starfsstöð Markaðsstofunnar er í Engihjalla 8, þar sem aðstaða er til móttöku gesta og minni funda. Bókhald er unnið af starfsmanni Markaðsstofunnar í kerfi Reglu ehf. og skoðunarmenn reikninga voru Ingólfur Arnarson og Valborg Inga Guðsteinsdóttir.

Fjöldi aðildarfyrirtækja Markaðsstofunnar hefur staðið í stað síðastliðin ár og eru þau að jafnaði í kringum 80. Á síðasta ársfundi var ákveðið að hafa árgjaldið óbreytt, þ.e. 15.000 kr.

Verkefni Markaðsstofunnar eru af margvíslegum toga, bæði stór og smá. Rauði þráðurinn er hlutverk Markaðsstofunnar sem tengiliður á milli fyrirtæka í Kópavogi og Kópavogsbæjar til að vinna að sameiginlegum verkefnum sem báðir hafa hag af.

Helstu verkefni á starfsárinu voru:

Könnun meðal fyrirtækja í Kópavogi. Markaðsstofa Kópavogs lét framkvæma könnun meðal fyrirtækja í Kópavogi í september 2019 með það markmið að ná fram viðhorfi fyrirtækja í bænum til þeirra verkefna sem Markaðsstofan eigi að leggja áherslur á og einnig að kanna þekkingu þeirra á Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Voru niðurstöðurnar hafðar til hliðsjónar við verkefnaáætlun Markaðsstofunnar fyrir árið 2020.

Heimsmarkmið Sameinuðuþjóðanna. Markaðsstofan hefur unnið að innleiðingu á Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna fyrir atvinnulífi og ferðamál í Kópavogi í samstarfi við Kópavogsbæ. Haldinn var hádegisfundur fyrir aðildarfélög um samfélagslega ábyrgð í samstarfi við Festu og vinnustofa, í samstarfi við Kópavogsbæ, um Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, með fulltrúum aðildarfélaganna.

Markaðsstofan mun beita sér fyrir því að gerður verði samningur milli Kópavogsbæjar og fyrirtækja í bænum um innleiðingu á Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Með undirritun samnings munu fyrirtæki skuldbinda sig til að innleiða ákveðin markmið í stefnu sína og daglega starfsemi. Undirbúningi vegna verkefnisins er lokið en verkefninu sem komið var á framkvæmdastig hefur nú verið frestað fram á haustið 2020.

Nýsköpun. Markaðsstofan hefur verið að skoða grundvöll fyrir eflingu nýsköpunar í Kópavogi. Ýmsir möguleikar hafa verið skoðaðir og mismunandi útfærslur teiknaðar upp. Málið er í vinnslu.

Verk og vit. Markaðsstofan hafði umsjón með hönnun og gerð á sýningarbás undir nafni Kópavogs á sýningunni Verk og vit sem halda átti 12.-15. mars 2020. Á sýningunni stóð til að Kópavogur og Reykjavík kynntu, með samliggjandi sýningarsvæðum, uppbyggingarsvæði sem tengjast fyrsta áfanga Borgarlínu, í samvinnu við verktaka sem standa að uppbyggingu á svæðinu. Sýningunni var frestað á síðustu stundu vegna Covid 19 faraldursins.

Ferðamál. Markaðsstofan beitti sér fyrir því að nýju svæði hefur verið bætt inn á ferðavefinn www.visitreykjavik.is undir nafninu Hiking Heaven. Hugmyndin er að tengja Kópavog betur við Heiðmerkursvæðið og „Græna trefilinn“ með merkingu göngustíga við Elliðavatn og út frá Guðmundarlundi.

Morgunverðarfundur. Árlegur morgunfundur Markaðsstofu Kópavogs og Íslandsbanka var haldinn þar sem aðalhagfræðingur bankans fór yfir nýja þjóðhagsspá bankans.

Önnur verkefni. Markaðsstofan hefur verið tengiliður milli Kópavogsbæjar og aðildarfélaga í ýmsum verkefnum, m.a. um aðgang að áberandi veggjum fyrir vegglist, málefni Bílastæðasjóðs Kópavogs, Hjartadagshlaupinu og fyrirhugaðrar Íþróttahátíðar í Kópavogi. Þá hefur Markaðsstofan verið tengiliður við fyrirtæki með þátttöku í starfamessum grunnskóla. Markaðsstofan hefur einnig verið í samstarfi við Bæjarblöðin með greinaskrifum og auglýsingum þar sem vakin er athygli á starfsemi aðildarfélaga. Að lokum hefur Markaðsstofan aðstoðað aðildarfélög á margvíslegan hátt.

Markaðsstofa Kópavogs er að langmestu leyti fjármögnuð af Kópavogsbæ. Ljóst er að ganga þarf til samninga við Kópavogsbæ til að tryggja langtímafjármögnun Markaðsstofunnar auk þess að vinna í að auka sjálfbærni hennar og auka fjölda aðildarfyrirtækja.