Samantekt frá fundi Markaðsstofu Kópavogs og Bílastæðasjóðs Kópavogs með rekstraraðilum í Hamraborg.

Markaðsstofa Kópavogs og Bílastæðasjóður Kópavogs boðuðu rekstraraðila, fasteignaeigendur og hagsmunaaðila í Hamraborg til kynningar- og samráðsfundar um bílastæðamál í  fimmtudaginn 18. júní sl.

Deildastjóri gatnadeildar Kópavogsbæjar Birkir Rútsson hélt framsögu. Hann fór yfir helstu forsendur fyrir stofnun Bílastæðasjóðs Kópavogs og kynnti hugmyndir um gjaldtöku í Hamraborg skv. samþykkt Umhverfis- og samgöngunefndar en þar segir:

„Á fundi umhverfis- og samgöngunefndar 7. apríl síðastliðinn var umverfissviði Kópavogsbæjar falið að útfæra tillögur er snúa að fyrirkomulagi gjaldskyldu á bílastæðum í Hamraborg og að kvöð sem tilgreind er í lóðarleigusamningum fyrir lóðir Hamraborgar 1 til 11 verði uppfyllt.Tilgangur gjaldskyldunnar er tvíþættur, annars vegar að stuðla að heilbrigðari nýtingu bílastæða, þannig að langtíma bifreiðastöður við verslanir verði upprætt svo að viðskiptavinum þeirra verði gert auðveldara að fá bílastæði við þá verslun sem þeir ætla sér að heimsækja og hins vegar að uppfylla kvöð í lóðarleigusamningum þar sem tilgreint er að Kópavogsbær skuli viðhalda bílastæðunum á lóðunum Hamraborg 1 til 11 gegn því að gjaldskylda verði sett á og tekjur af þeirri gjaldtöku renni til bílastæðasjóðs Kópavogs. Fyrirkomulag gjaldskyldunnar er ekki fullmótað en tillögurnar ganga út frá því að einungis hluti bílastæðanna verði gerður gjaldskyldur, þ.e. þau bílastæði sem standa næst verslunum á jarðhæð, og að tímamörk verði á bifreiðastöðunum s.s. fyrsti hálftíminn gjaldfrjáls og umfram þess tíma þarf að greiða hæfilegt gjald. Önnur bifreiðastæði sem ekki standa beint við verslanir skulu áfram vera gjaldfrjáls.

Birkir upplýsti að tilgangur tillögunnar væri fyrst og fremst að bæta bílastæðamenningu og fyrirbyggja að skammtíma þjónustustæði séu notuð sem langtíma stæði. Hann lagði áherslu á að tekjuleg sjónarmið réðu ekki ferðinni. Einnig kynnti hann ákvörðun Kópavogsbæjar um að virkja ákvæði í lóðarleigusamningum en þar segir:

Jafnframt er sú kvöð á suðurhluta lóðar að þar skuli vera hluti af sameiginlegu bílastæði fyrir húsin nr. 1, 3, 5, 7, 9 og 11 við Hamraborg. Kópavogur mun sjá um rekstur bifreiðastæðis þessa en gjaldskylda verður á notkun þeirra á verslunartíma og verður gjaldskrá einhliða ákveðin af sveitarfélaginu og renna gjöldin til þess.

Málefnalegar og góðar umræðu urðu um málefnið og komu mismunndi skoðanir fram. Það helsta sem fram kom og menn voru almennt sammála um var:

– Setja gjaldskyldu á bílastæði á verslunar og þjónustusvæði í Hamraborg á dagvinnutíma á virkum dögum.
– Fyrstu 30 til 60 mínúturnar verða gjaldfrjálsar (mismunandi skoðanir komu fram á heppilegustu tímalengd).
– Almennt voru fundargestir ánægðir með að Kópavogsbær muni yfirtaka rekstur og umhirðu bílastæða og var m.a. bent á mikilvægi þessa þáttar við að gera Hamraborgina að einu samræmdu miðbæjarsvæði.

Birkir upplýsti í lok fundar í hvaða ferli málið fari og sagðist reikna með að breytingar komi til framkvæmda á fyrri hluta ársins 2021.