Nýtt baðlón rís nú á Kársnesi í Kópavogi og hefur það fengið nafnið Sky Lagoon. Um er að ræða eina af stærstu framkvæmdum í ferðaþjónustu síðustu ára. Framkvæmdir ganga vonum framar og hefur Sky Lagoon verið að ráða til sín starfsfólk á síðustu misserum. Strax frá byrju mun Sky Lagoon innleiða heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna og hefur viljayfirlýsing verið undirrituð af aðilum frá Markaðsstofu Kópavogs og Sky Lagoon. Það er jákvætt að fyrirtækið tileinki sér markmiðin strax frá byrjun og innleiði þau inní daglegan rekstur og stefnu.

Sky Lagoon er nýr og glæsilegur baðstaður með heitu lóni við sjóinn og einstöku útsýni á ysta odda Kársnessins í Kópavogi. Þar geta gestir slakað á og notið þess áhrifaríkasta sem íslensk náttúra hefur upp á að bjóða. Í Sky Lagoon fléttast orka jarðhitans og kraftar hafsins saman við hlýjar móttökur í notalegri umgjörð þar sem töfrandi hönnun á heimsmælikvarða orkar á öll skilningarvitin.

Íslensk baðmenning er svo mikilvægur hluti af okkar menningu, við sjálf erum dugleg að nýta okkur hana til slökunar og endurnæringar og erlendir gestir okkar eru forvitnir og vilja kynnast þessum spennandi menningararfi okkar Íslendinga. Í Sky Lagoon verður hægt að fara í gegnum þessar endurnærandi hefðir m.a. í einstakri Sauna upplifun, gufuböðum, köldum böðum og mistri.

Hvort sem það eru bjartar sumarnætur, dimmir vetrardagar, þá er svo margt af því sem fólki finnst einstakt við Ísland sem mun sameinast í Sky Lagoon.  Séríslenskur ævintýraheimur innan um kletta með magnað útsýni yfir hafið, skerin og nesin, verandi samt á höfuðborgarsvæðinu. Þessi staðsetning er mögnuð þar sem gulur og bleikur himinn sést í sólsetri, sjórinn lemst utan í varnargarðinn, kyrrðin er einstök í góðu veðri og þessi óendanlega sýn; Keilir, Reykjanesið, Bessastaðir, Snæfellsjökull, sjórinn skerin, öldurnar og himininn sem tekur stöðugum breytingum. Himinninn er svo óvænti þátturinn í upplifuninni. Sólin brýst í gegnum skýin,rigningin í fjarska sem myndar fallegt mynstur þar sem hafið og himininn sameinast.

Baðlónið verður með 70 metra löngum óendanleikakanti sem gefur þá tilfinningu að lónið sameinist við sjóinn þegar horft er úr lóninu.

Sky Lagoon á að vera fullkomið til slökunar og endurnæringar í íslenskri náttúru sem umlykur gesti en búast má við að kópavogsbúar geti notið þess að koma í Sky Lagoon á vormánuðum 2021.

 

Vefsíða: https://www.skylagoon.com/

Myndband: https://youtu.be/tsR5mhzhdpA