ABC barnahjálp er íslenskt hjálparstarf, stofnað árið 1988. Starfið snýst um að gefa fátækum börnum tækifæri til menntunar og hjálpa götubörnum til nýs lífs með því að veita þeim heimili og menntun. ABC barnahjálp starfar nú í 7 löndum Asíu og Afríku en þau eru: Indland, Pakistan, Filippseyjar, Bangladess, Kenýa, Úganda og Búrkína Fasó. ABC barnahjálp hefur byggt margar heimavistir og skóla á síðustu 30 árum sem fjármögnuð hafa verið með söfnunarfé, opinberum framlögum og stökum gjöfum einstaklinga og fyrirtækja á Íslandi. ABC hefur útskrifað þúsundir nemenda sem hafa farið út í lífið með nýja von og góða menntun í farteskinu.

Nytjamarkaður ABC barnahjálpar sem rekinn er til styrktar hjálparstarfinu hefur nú flutt á Nýbýlaveg 6, 200 Kópavogi. Nytjamarkaðurinn var stofnsettur fyrir 13 árum síðan og hafa vinsældir hans vaxið ár hvert. Markaðurinn er í dag afar þýðingamikil tekjulind fyrir samtökin, en allur ágóði markaðarins rennur til starfsemi ABC barnahjálpar. Á Nytjamarkaðinum eru til sölu bæði nýjar og notaðar vörur svo sem föt, heimilistæki, húsgögn og í raun allt á milli himins og jarðar. Opnunartími Nytjamarkaðarins er milli 12:00 og 18:00 alla virka daga og milli 12:00 og 16:00 á laugardögum.

Markaðurinn er ekki einungis mikil búbót fyrir landsmenn heldur mikilvægur hlekkur í umhverfisvernd með endurnýtingu verðmæta. Nú er gullið tækifæri fyrir Kópavogsbúa að fara í gegnum geymsluna, bílskúrinn eða fataskápinn og athuga hvort að þar leynist verðmæti, sem tilvalið væri að gefa framhaldslíf á Nytjamarkaðinum, segir Laufey Birgisdóttir framkvæmdastjóri. Hún hvetur alla til að leggja leið sína á Nytjamarkaðinn og kanna hvort þar sé eitthvað sem hugurinn girnist og um leið að styðja við og styrkja málefnið. Hlakkar hún til að taka á móti velunnurum starfsins á formlegum opnunardegi þann 2. mars sem er „Dagur gamalla hluta“. (Old stuff day https://www.daysoftheyear.com/days/old-stuff-day/ ).