Nýsköpunarsetur, fyrir frumkvöðla í Kópavogi, verður opnað föstudaginn 19. mars. Setrið hefur fengið nafnið Skóp, sem stendur fyrir Nýsköpun í Kópavogi og var það valið úr tillögum í nafnasamkeppni meðal Kópavogsbúa. Tillaga að nafninu kom frá Magnúsi B Óskarssyni. Skóp verður rekið af Markaðsstofu Kópavogs með stuðningi Kópavogsbæjar og atvinnulífsins í bænum.

Guðmundur Sigurbergsson viðskiptafræðingur og MBA hefur verið ráðinn forstöðumaður setursins og ráðgjafi.

Við munum leggja okkur fram um að veita hverjum og einum þátttakanda stuðning við að fara skipulega í gegnum viðskiptahugmynd sína, rýna hugmyndina, greina þá þætti sem skipta mestu máli til að hrinda henni í framkvæmd og setja hana fram með skipulegum hætti í heildstæðri viðskiptaáætlun. Reiknað er með að hver og einn þátttakandi verði 3-6 mánuði að vinna sitt verkefni og fari út með leiðsögn um næstu skref til að gera góða hugmynd að verðmætri vöru, segir Guðmundur. Þeir sem eru með viðskiptahugmynd og vilja hrinda henni í framkvæmd eru hvattir til að sækja um sæti á vefsvæðinu www.skop.is. Við skoðum allar hugmyndir og vonumst til að geta tekið á móti mörgum hugmyndaríkum frumkvöðlum. Sérstaklega verður horft til þess að styðja einstaklinga sem eru í atvinnuleit og hjálpa þeim að koma viðskiptahugmyndum sínum í framkvæmd og skapa sér þannig sín eigin atvinnutækifæri. Helstu skilyrði fyrir þátttöku eru að viðkomandi sé lögráða og með lögheimili í Kópavogi. Við hvetjum alla áhugasama til að kynna sé starfsemi SKÓP á vefsvæðinu www.skop.is eða með því að hafa samband á netfangið gudmundur@skop.is, segir Guðmundur að lokum.

Skóp verður staðsett að Hlíðarsmára 9, 200 Kópavogi. Helstu bakhjarlar verkefnisins í samstarfi við Markaðsstofa Kópavogs eru Kópavogsbær, Íslandsbanki og NTV skólinn.

Á myndinni eru Guðmundur Sigurbergsson forsvarsmaður Skóp og Björn Jónsson frá Markaðsstofu Kópavogs.