Þann 19 mars 0pnaði atvinnu- og nýsköpunarsetrið SKÓP fyrir frumkvöðla í Kópavogi.  Frumkvæði að verkefninu hefur Markaðsstofa Kópavogs og nýtur til þess dyggs stuðnings frá  Kópavogsbæ og fyrirtækjum í bæjarfélaginu.

Markmið verkefnisins er að efla enn frekar fjölbreytt atvinnulíf í bænum með sérstakri áherslu á nýsköpun og frumkvöðlastarf.  Hugmyndin er að veita Kópavogsbúum aðstoð við að fullmóta viðskiptahugmyndir sínar og verður sérstaklega horft til þeirra einstaklinga sem eru í atvinnuleit og vilja skapa sér sín eigin atvinnutækifæri.

Unnið verður með þátttakendum á einstaklingsgrunni við að rýna viðskiptahugmyndina, greina þá þætti sem skipta mestu máli til að hrinda henni í framkvæmd og setja hugmyndina fram með skipulegum hætti í heildstæðri viðskiptaáætlun.

Reiknað er með að ferlið frá hugmynd að viðskiptaáætlun geti tekið 3-6 mánuði en það er þó einstaklingsbundið og ræðst m.a.  af eðli og umfangi viðskiptahugmyndarinnar.

Helstu skilyrði fyrir þáttöku eru að viðkomandi sé lögráða og eigi lögheimili í Kópavogi.  Nánari upplýsingar um verkefnið er að finna á vefsetri atvinnu- og nýsköpunnarsetursins www.skop.is  Þar geta áhugasamir skráð sig til þáttöku og pantað viðtal við ráðgjafa.

Atvinnu- og nýsköpunarsetrið verður með aðstöðu í húsnæði NTV í Hlíðarsmára 9 í Kópavogi.  Þar er í boði fundaaðstaða og aðgangur að tölvuveri fyrir þá sem á því þurfa að halda.

Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri fagnaði opnun setursins og sagist binda miklar væntingar til starfsins.

Frekari upplýsingar veita Guðmundur Sigurbergsson forstöðumaður SKÓP í sima 861 5757 og Björn Jónsson framkvæmdastjóri Markaðsstofu Kópavogs í síma 864 8830.

Á myndinni er klippt á boða til marks um formlega opnun atvinnu- og nýsköpunarsetursins SKÓP.  Á myndinni eru frá vinstri:  Guðmundur Sigurbergsson, forstöðumaður SKÓP, Helga Hauksdóttir formaður stjórnar Markaðsstofu Kópavogs,  Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamála-. iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri.