Atvinnu- og nýsköpunarsetrið Skóp hefur flutt starfsemi sína að Hlíðasmára 10 í Kópavogi. Skóp sem var stofnsett á vormánuðum 2021 er rekið af Markaðsstofu Kópavogs með stuðningi frá Kópavogsbæ. Markmið starfseminnar er að skapa umhverfi og aðstöðu sem hvetur einstaklinga til nýsköpunar og styður við aðila sem eru að fara af stað með eigin rekstur. Áhersla er lögð á að Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna séu höfð að leiðarljósi við þróun verkefna og rekstur Skóp.

Að sögn Björns Jónssonar framkvæmdastjóra Markaðsstofu Kópavogs býður ný og mun stærri aðstaða möguleika til að auka þjónustuna og fjölga þátttakendum. Gegn vægu gjaldi er í boði góð vinnuaðstaða, aðgangur að neti, fundarherbergjum og kaffistofu ásamt fræðslu og persónulegri ráðgjöf. Reynsla okkar þann stutta tíma sem Skóp hefur verið opið undirstrikar mikilvægi þess að frumkvöðlar hafi vinnustað til að mæta á og séu hluti af samfélagi. Nú þegar hefur nokkur fjöldi einstaklinga náð að búa til sín eigin störf og unnið er að mörgum spennandi hugmyndum í skjóli Skóp.

Markaðsstofa Kópavogs hefur teiknað upp framtíðarsýn fyrir nýsköpun í Kópavogi byggða á áherslum sem birtast í málefnasamningi nýs bæjarstjórnarmeirihluta í Kópavogi um eflingu nýsköpunar í bæjarfélaginu, en þar er kveðið á um að skoðuð verði uppbygging á nýsköpunarsetri, stofnun hátækniklasa og að samstarf við háskólana verði aukið. Flutningur Skóp í stærra og betra húsnæði er liður í þeirri stefnumörkun.

Áhugasamir sem vilja kynna sér aðstöðuna geta haft samband með tölvupósti á skop@skop.is.