Atvinnu- og nýsköpunarsetur í Kópavogi
Markaðsstofa Kópavogs hefur fengið styrk úr Frumkvöðlasjóði Íslandsbanka til að stofnsetja Atvinnu- og nýsköpunarsetur í Kópavogi. Við úthlutun úr sjóðnum þann 6. nóvember sl., þar sem 14 nýsköpunarverkefni fengu stuðning, sagði í umsögn úthlutunarnefndar: „Markaðsstofa Kópavogs setur á fót atvinnu- og nýsköpunarsetur í Kópavogi í samstarfi við atvinnulífið í bænum með það að markmiði að skapa ný störf. Áhersla verður lögð á stuðning við frumkvöðla á fyrstu skrefum nýsköpunar m.a. við mótun viðskiptahugmynda og gerð viðskiptaáætlana.“
Að sögn Helgu Hauksdóttur formanns stjórnar Markaðsstofu Kópavogs er markmið með rekstri setursins að efla nýsköpun og skapa ný störf. Áhersla verður lögð á stuðning við frumkvöðla við mótun viðskiptahugmynda og gerð viðskiptaáætlana, sem lýsa vel skilgreindu viðfangsefni sem stutt er af aðgerða- og rekstraráætlun byggða á gagnaöflun og rökstuðningi. Þátttakendur munu fá aðstoð við að koma verkefnum sínum í framkvæmd með tengingu við fjárfesta og starfandi fyrirtæki í Kópavogi eða með stofnun eigin rekstrar.
Við rekstur setursins verða Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna höfð að leiðarljósi, bæði við rekstur setursins sjálfs sem og þeirra nýsköpunarverkefna sem valin verða til þátttöku. Kópavogsbær er í fremstu röð bæjarfélaga í heiminum við innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og í stefnu bæjarfélagsins kemur skýrt fram að Kópavogur sé framsækið bæjarfélag og ætli að vera í farabroddi í nýsköpun. Stefnt er að því að opna Atvinnu- og nýsköpunarsetur í byrjun næsta árs og festa það í sessi til lengri tíma með fjármögnun úr opinberum nýsköpunarsjóðum.
Í ljósi knýjandi þarfar vegna aukins atvinnuleysis í þjóðfélaginu verður verkefnið í byrjun rekið með stuðningi atvinnulífs og Kópavogsbæjar og nú er verið að leita samstarfsaðila úr hópi öflugra fyrirtækja í bænum. Stuðningur Íslandsbanka verður vonandi smiðshöggið til að hrinda verkefninu af stað segir Helga.
Þeir sem eru áhugasamir um þátttöku í verkefninu geta haft samband við Markaðsstofu Kópavogs á markadsstofa@kopavogur.is.