- Jæja krakkar, pökkum í bílinn og tökum með okkur nesti og hlý föt!
- Erum við að fara að fara að kaupa ís og skoða apana í Eden?
- Nei, aldeilis ekki, við erum að fara í Kópavoginn!
Það er ekki eins og það sé eitthvað ferðalag að fara í Kópavog: miðja höfuðborgarsvæðisins er í Kópavogi. Hér snýst ævintýrið um áfangastaðinn en ekki ferðalagið þangað því á nokkrum mínútum ertu komin(n) á öflugasta verslunar og þjónustusvæði höfuðborgarsvæðisins, Smáralind og hið fjölbreytta þjónustuumhverfi í Lindunum og upp með Dalveginum. Fyrirtækin sem eru að koma sér fyrir í glæsilegum Norðurturninum uppgötvuðu að ferðalagið fyrir starfsmenn þeirra í vinnuna var að styttast talsvert. Af hverju að hanga í bíl á leið heim eða í vinnuna þegar maður getur átt meiri tíma með börnunum? Þegar framkvæmdastjóri Markaðsstofunnar hóf störf fyrir Markaðsstofuna voru sterk íþróttafélög og verslun og þjónusta í Kópavogi efst í huga. Eftir því sem ég hitti fleiri íbúa skildi ég af hverju svo mörgum íbúum finnst Kópavogur fjölskylduvænt bæjarfélag: Sjálfbærni (þarf aldrei að fara úr Kópavogi, öll þjónusta í bænum), íþróttafélögin með glæsilegan árangur og afburða aðstöðu fyrir íþróttaiðkun barnanna með Gerplu, HK og Breiðablik í fararbroddi. En það er ekki allt:
- Mamma ég þarf ekki síma!
- Nú!? Af hverju ekki?
- Krakkar eru hættir að hringja. Ég nota bara Ipadinn sem ég fæ í skólanum!
Heyrði af þessu samtali og mundi þá eftir fréttaumfjölluninni haustið 2016 um skólakerfið í Kópavogi og hvað þjónusta skólanna í Kópavogi væri góð þ.s. börnin fá Ipad í skólanum. Öflugt starf Gerðarsafns og áhersla þess á samtímalist og börn; Salurinn, eitt besta tónlistarhús landsins og Náttúrufræðistofa Kópavogs. Framsýni og þor bæjarfélagsins til að fara nýjar leiðir, með því að taka t.d. forskot í umhverfismálum á höfuðborgarsvæðinu og sortera plastið frá öðru rusli, setja fram vef þ.s. hægt er að rekja hvert peningarnir í rekstri bæjarfélagsins fara og með metnaði í skipulagsmálnum þar sem kröfur eru gerðar um falleg hönnun og skipulag sem er í takti við nútímahugmyndir um gott samfélag.