Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna í Kópavogi
Heimsmarkmiðin í Kópavogi
Bæjarstjórn Kópavogs hefur samþykkt að innleiða heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun í stefnu Kópavogsbæjar.
Mikilvægt er að fyrirtæki og stofnanir í bæjarfélaginu taki höndum saman og innleiði heimsmarkmiðin með samstilltum aðgerðum. Kópavogsbær hvetur fyrirtæki og stofnanir í bænum til að innleiða heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna í stefnu sína og daglegan rekstur og sýna þannig samfélagslega ábyrgð í verki sem leiði til jákvæðra áhrifa á umhverfið og samfélagið.
Viljayfirlýsing um innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna
Fyrirtæki í Kópavogi eru hvött til að staðfesta viljayfirlýsingu um innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og vinna þannig að því að gera Kópavog, Ísland og heiminn allan að betri stað til að búa og starfa í.
Markaðsstofa Kópavogs hvetur rekstraraðila í bæjarfélaginu til að sýna ábyrgð í verki með því að ná mælingu á núverandi stöðu í ýmsum þáttum starfsemi sinnar og setja sér jafnframt markmið um framfarir til ársins 2024, með leiðbeinandi markmiðasetningu Markaðsstofu Kópavogs til hliðsjónar. Með þátttöku í verkefninu samþykkja aðilar að veita Markaðsstofu Kópavogs upplýsingar um helstu markmið sín, sem og árlegar árangursmælingar og að upplýsingarnar verði skráðar í sameiginlegan gagnabanka á vegum Markaðsstofu Kópavogs. Samantekt á upplýsingum verða opinberar til að upplýsa um árangur heildarinnar en upplýsingar um einstaka þátttakendur verða ekki birtar.
Val á heimsmarkmiðum
Heimsmarkmið sem helst tengjast daglegum rekstri fyrirtækja og stofnana og talið er að rekstraraðilar geti haft mest jákvæð áhrif á voru valin í forgang í þessu verkefni, með aðstoð rýnihóps aðildarfélaga Markaðsstofunnar. Markmið og árangursmælingar eins og þau eru hér sett fram eru hugsuð til leiðbeiningar en eru ekki bindandi fyrir alla þátttakendur. Aðstæður rekstraraðila eru mismunandi m.a. eftir starfsgrein og stærð þeirra og hvetjum við hvern og einn til að máta heimsmarkmiðin við sinn rekstur og velja þau markmið sem best passa eigin starfsemi. Markaðsstofan mælir hins vegar með því að þau heimsmarkmið sem hér eru kynnt, til skráningar í sameiginlegum gagnagrunni, verði höfð í forgangi sé það mögulegt.